Húsnæðisverð hækkaði meira á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum í kórónuveirufaraldrinum, landsframleiðsla dróst meira saman hérlendis en á þeim og atvinnuleysi varð meira.
Þetta kemur fram í skýrslunni State of the Nordic Region sem rannsóknarstofnun Norrænu ráðherranefndarinnar (Nordregio) hefur unnið og var birt í dag.
Þar kemur fram að mótvægisaðgerðir stjórnvalda á Norðurlöndunum hafi hjálpað til við að milda efnahagslegt högg faraldursins. Samantekt í skýrslunni sýnir að Ísland hafi eytt minnstu hlutfalli af landsframleiðslu slíkar aðgerðir af Norðurlöndunum en hafi sett mest, rúmlega tíu prósent af landsframleiðslu, í bein útgjöld sem endurheimtast ekki. Á hinum Norðurlöndunum var stærra hlutfalli af skattgreiðslum frestað, eigið fé lagt til eða lán veitt. Þau fóru með öðrum orðum blandaðri leið en Ísland, sem dældi aðallega fjármunum inn í fyrirtæki landsins í formi ýmis konar styrkja.
Verg landsframleiðsla dróst mest saman á Íslandi af öllum Norðurlöndunum á fyrsta tæpa ári faraldursins, eða um 6,5 prósent árið 2020. Til samanburðar dróst hún saman um 2,1 til 2,9 prósent í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi og einungis um 0,8 prósent í Noregi.
Atvinnuleysi sem mældist mest 17,8 prósent í apríl 2020, varð meira hérlendis í faraldrinum en í nágrannalöndunum. Það hefur þó jafnað sig skarpt og mældist 5,2 prósent í síðasta mánuði. Það er svipað atvinnuleysi og var fyrir faraldurinn þegar slétt fimm prósent íbúa Íslands á vinnumarkaði mældust án atvinnu, en það var hæsta hlutfall sem hafði mælst frá vorinu 2012.
Hækkanir á húsnæðisverði mestar á Íslandi
Í skýrslunni er hækkun á húsnæðisverði skoðuð sérstaklega og þar kemur í ljós að það hafi almennt hækkað talsvert á öllum Norðurlöndunum. Mest hækkaði það þó á Íslandi en húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur allt í allt hækkað um 31,3 prósent frá því í mars 2020 og um 22,5 prósent síðastliðið ár. Þar á eftir koma verðhækkanir húsnæðis í Svíþjóð, Danmörku og Noregi á meðan Finnland skar sig nokkuð úr með hóflegri verðhækkunum og stöðugri húsnæðismarkaði.
Vaxandi gjá milli tekjuhópa
Heilt yfir sýnir skýrsla Nordregio að norrænu hagkerfin hafi tekist á við heimsfaraldurinn betur en flest önnur ríki Evrópu þótt neikvæð áhrif hafi allstaðar verið umtalsverð.
Gustaf Norlén, einn ritstjóra State of the Nordic Region og greinandi hjá Nordregio, segir að mótvægisaðgerðir í efnahagsmálum virðast hafa skilað nokkuð góðum árangri á Íslandi, þar sem ferðaþjónusta sé stór atvinnugrein sem varð fyrir miklum áhrifum af heimsfaraldrinum.
Í skýrslunni segir að heimsfaraldurinn hafi þó leitt í ljós vaxandi félagslega gjá á milli ólíkra svæða og þjóðfélagshópa á Norðurlöndum, sérstaklega milli ólíkra tekjuhópa og milli landsbyggðar og þéttbýlisstaða. Norlén þetta eiga sérstaklega við um hópa sem standa veikar eins og aldraða, þá sem fæddir eru erlendis og ungt fólk. Það hafi orðið fyrir neikvæðustu áhrifum heimsfaraldursins, bæði hvað varðar heilsu og fjárhag. „En jafnframt sjáum við að stuðningsaðgerðir stjórnvalda við fyrirtæki og launþega hafa stuðlað að færri gjaldþrotum og talsvert hraðari bata en eftir fjármálakreppuna 2008.“