Fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, og formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson, ræddu sjávarútvegsmál í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun.
Logi spurði ráðherrann meðal annars hvort hann væri sammála formanni Framsóknarflokksins varðandi það að almenningur fengi stærri arð af sjávarauðlindinni og hvort þetta mál hefði verið rætt í ríkisstjórninni.
Bjarni sagði að ef hækka ætti veiðigjaldið fyrir stórar útgerðir þá myndi það ganga þvert yfir alla útgerðarflokka. Þá myndu minni aðilarnir þurfa að svitna. „Þeir munu líða fyrir það að njóta ekki hagkvæmni stærðarinnar.“
Hefur þetta verið rætt innan ríkisstjórnarflokkanna?
Logi vísaði við upphaf fyrirspurnar sinnar í orð Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, sem hann lét falla á flokksþingi flokksins um síðastliðna helgi.
Kjarninn fjallaði um ræðu Sigurðar Inga um liðna helgi en á flokksþinginu sagðist hann leggja mikla áherslu á að ná sátt um þau gjöld sem sjávarútvegurinn greiðir. Ná sátt um að stærri hluti af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja, samhliða verulega aukinni arðsemi greinarinnar næstu 10 ár, rynni til þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar.
Benti Logi á að þetta væri vissulega nokkuð nýr tónn hjá einum af oddvitum ríkisstjórnarinnar en að Samfylkingin fagnaði þessari stefnubreytingu.
„Slíkt mál er ekki að finna í nýuppfærðri þingmálaskrá en ég er viss um að það megi bæta úr því enda mikill meirihluti fyrir því samkvæmt mælingu að þjóðin fái sanngjarnan arð af sjávarauðlindinni,“ sagði hann og spurði Bjarna hvort aukin skattlagning á ofurhagnað í sjávarútvegi hefði verið rædd formlega við ríkisstjórnarborðið.
„Hvernig hugnast ráðherra yfir höfuð þessar hugmyndir félaga síns í ríkisstjórn? Og getum við átt von á því að ríkisstjórnin leggi til annaðhvort slíka skattlagningu ofurhagnaðar eða jafnvel hækkun á álögum í formi veiðigjalda?“ spurði hann.
Ríkið ekki með neina sérstaka skattlagningu á ofurhagnað
Bjarni svaraði og sagði að spurt væri um stórt mál sem varðaði í raun og veru fiskveiðistjórnarkerfið og gjaldtöku vegna aðgangs að takmarkaðri auðlind.
„Við erum að fara þá leið í dag að vera með eitt gjald, reyndar breytilegt eftir því hvort við erum að tala um uppsjávarveiðar eða bolfiskveiðar, óháð stærð útgerðar. Og hérna kemur vandamálið: Ef við viljum hækka veiðigjaldið fyrir það að vera með stóra útgerð og það gengur þvert yfir alla útgerðarflokka þá munu minni aðilarnir þurfa að svitna. Þeir munu líða fyrir það að njóta ekki hagkvæmni stærðarinnar.
Þetta sáum við mjög vel á sínum tíma þegar að fjárfesting stöðvaðist í útgerð á Íslandi í tíð Jóhönnu-stjórnarinnar. Það var farið mjög bratt í hækkanir á veiðigjöldum og það stöðvaðist öll fjárfesting í greininni. Í dag höfum við reglu sem tekur um það bil þriðjunginn af veiðiferðinni eða afkomu hverrar veiðiferðar og skilar því í veiðigjald til ríkisins. En við erum ekki með neina sérstaka skattlagningu á ofurhagnað eins og hérna er komið inn á,“ sagði hann.
Þá sagðist hann þurfa betri upplýsingar um það hvað átt væri við þegar menn væru að tala um ofurhagnað og að skattleggja hann sérstaklega.
„Er það þegar afkoman er orðin eitthvert hlutfall af veltu? Ég átta mig ekki alveg á hvað er verið að tala um hérna. Ég held hins vegar að eftir því sem við viljum gera meiri kröfu um að fá hærri hlutdeild, sem sagt auðlindarinnar, til ríkisins, þá muni krafan verða sú að útgerðin geti stækkað meira og notið meiri hagkvæmni stærðarinnar, sem mun síðan birtast okkur stjórnmálamönnunum sem kvótaflótti hér og hvar og færri og færri smáir og millistórir aðilar geta lifað af við þær aðstæður vegna þess að við höfum sett eitt í forgang, sem er hámörkun hagnaðar í greininni,“ sagði hann í lok svarsins.
„Þá er það skýrt“ – Bjarni ekki sammála Sigurði Inga
Logi sagði í framhaldinu að hægt væri að útfæra þetta með ýmsum hætti, eftir ólíkri stærð útgerða.
„En þetta voru tvær mínútur til að svara: Nei, hann er ekki sammála formanni Framsóknarflokksins. Þá er það skýrt,“ sagði þingmaðurinn.
Þá vildi Logi benda á að Brim hefði hagnast um 11,3 milljarða á síðasta ári og borgað 900 milljónir í veiðigjöld. Brim hefði ennfremur borgað sér 4 milljarða í arð. Hann vildi nefna þetta vegna þess að ráðherrann virtist „vera í einhverjum vafa um“ hvað ofurhagnaður væri. Ráðherrann væri „væntanlega að búa til einhverja skilgreiningu“ um að það væri teygjanlegt hugtak.
„Að sama skapi er Síldarvinnslan með 11 milljarða hagnað, borgar 531 milljón í veiðigjöldum en ætlar að borga 3,4 milljarða í arð. Við vitum að veiðigjöld standa ekki einu sinni undir eftirliti og utanumhaldi um auðlindina. Vísandi í þessar tölur, finnst hæstvirtum fjármálaráðherra að þessi tvö fyrirtæki séu aflögufær?“ spurði hann.
Ættu öll fyrirtæki að borga skatta eftir stærð?
Bjarni svaraði í annað sinn og spurði af hverju Logi legði ekki til að fyrirtækin almennt í landinu borguðu skatta eftir stærð.
„Eða er það bara í útgerðinni sem menn eiga að borga skatta eftir stærð? Ég átta mig ekki alveg á hugmyndafræðinni sem er hérna að baki. Tel ég að hægt sé að breyta veiðigjaldakerfinu? Já, ég talaði til dæmis um það fyrir kosningar hvort við ættum ekki að velta því fyrir okkur að skoða, frekar en að fara dýpra inn í veiðigjaldatöku af útgerðaraðilum á Íslandi, að nota sérstakan tekjuskatt sem væru þá skilaboð til útgerðaraðila á Íslandi að þeir ættu að reyna að gera sem best, við myndum taka okkar skerf af hagnaðinum,“ sagði hann.
Varðandi þær tölur sem Logi nefndi þá sagði Bjarni að Logi vildi endilega setja þær í umræðuna „algerlega án tillits“ til fjárbindingar og veltu.
„Hvernig væri að tala einhvern tímann um hagnað sem hlutfall af veltu? Hvernig væri að viðurkenna það að þegar menn greiða sér arð koma 22 prósent í skatt til ríkisins? Hvernig væri að minnast á það að 20 prósent af hagnaðinum koma til ríkisins? Það er ekki bara veiðigjaldið sem skilar sér til ríkisins heldur líka skattur af launum, það skilar sér tryggingagjald og skattsporið er ekki, eins og háttvirtur þingmaður virðist halda, 900 milljónir þegar menn skila 11 milljarða hagnaði,“ sagði hann að lokum.
Logi kallaði fram í í lok ræðu ráðherrans að hann ætti að halda hana fyrir formann Framsóknarflokksins, Sigurð Inga.