Þau níu ríki heims sem losa mest af gróðurhúsalofttegundum, auk ríkja Evrópusambandsins, eru samanlagt ábyrg fyrir rúmlega tveimur þriðju af allri losun á heimsvísu. Samanlagt stafar rúmur helmingur allrar árlegrar losunar frá brennslu jarðefnaeldsneytis og iðnaði frá Bandaríkjunum, Kína, ríkjum Evrópusambandsins og Indlandi.
Afgangurinn af heiminum horfir því ef til vill eðlilega til þessara ríkja, mestu losunarvaldanna, þegar það liggur ljóst fyrir að ríki heims þurfa í sameiningu að draga afar skarpt úr losun til þess að halda hlýnun jarðar innan einhverra ásættanlegra marka. Samkvæmt Parísarsamkomulaginu er markmiðið að halda hlýnun jarðar vel innan við 2° út þessa öld og að stefnt skuli að því að halda henni innan við 1,5° og nú sitja fulltrúar ríkja heims á Cop26-ráðstefnunni í Glasgow og horfast í augu við hvernig það gangi að ná markmiðunum.
Færa má rök fyrir því að þau markmið sem stefnt var að virðist órafjarri. Í nýlegri úttekt Sameinuðu þjóðanna á framsettum markmiðum ríkja heims fram til ársins 2030 segir að framsett markmið – að því gefnu að öll komist til framkvæmda – setji heiminn einungis á þá braut að hlýnun jarðar nemi 2,7°C árið 2100.
En hvað hafa stærstu losunarvaldarnir boðað nú þegar? Þetta var dregið saman í yfirferð New York Times, sem byggir á gögnum frá Climate Action Tracker, sjálfstæðum greiningaraðila sem rýnir yfirlýsingar og stefnumarkandi ákvarðanir margra helstu ríkja heims og leggur mat á hvort efndir séu að fylgja orðum er kemur að loftslagsmálum.
Indland stefnir að kolefnishlutleysi 2070
Frá stjórnvöldum í Indlandi höfðu ekki komið fram nein tímasett markmið um hvenær landið hygðist ná ákveðnum áföngum í loftlagsmálum – fyrr en á ráðstefnunni í Glasgow í gær. Narendra Modi forsætisráðherra landsins setti þar í ræðu sinni fram markmið um að Indland yrði kolefnishlutlaust árið 2070 og að ríkið myndi árið 2030 framleiða yfir helming af rafmagninu sem ríkið þarf með öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti.
Enn er þó ansi langt í að Indland byrji að draga úr losun sinni, enda er efnahagur ríkisins að þróast ört og búast má við því að orkuþörf vaxi þar hratt á næstu árum. Losunin á hvert mannsbarn í Indlandi er í dag einungis um fjórðungur losunarinnar á mann í Kína og einn sjöundi hluti losunar á hvern Bandaríkjamann.
Indverskir ráðamenn hafa á umliðnum misserum biðlað til auðugri ríkja um stuðning til fátækari ríkja um aðgerðir í loftslagsmálum og Modi minnti á það ræðu sinni í gær að þrátt fyrir að Indverjar væru 17 prósent jarðarbúa bæru þeir einungis ábyrgð á um 5 prósentum af þeirri losun sem hefði leitt til hlýnunar jarðar.
Kína færir ekkert nýtt fram og stefnir á kolefnishlutleysi 2060
Kína, sem losar mest allra ríkja um þessar mundir, eða nær 14 gígatonn (milljarða tonna) koltvísýrings á ári, hefur lýst því yfir að toppnum í losun ríkisins verði náð einhverntímann fyrir árið 2030 og að stefnt sé að kolefnishlutleysi árið 2060.
Í aðdraganda COP26 í Glasgow höfðu kínversk stjórnvöld verið hvött til þess að setja fram metnaðarfyllri skammtímamarkmið, en í stefnu sem gefin var út í síðustu viku komu ekki fram nein fyrirheit umfram þau sem Xi Jinping forseti landsins hafði áður lýst yfir.
Xi Jinping sækir ekki ráðstefnuna í Glasgow heim. Þess í stað sendi hann frá sér skriflegt ávarp, þar sem meðal annars hann kallar eftir því að ríkari lönd heims hjálpi þeim fátækari að gera betur í að takast á við loftslagsvánna.
Markmið ekki í hendi í Bandaríkjunum – fastsettari í ESB
Bæði Bandaríkin og Evrópusambandið hafa lýst því yfir að þau ætli sér að draga nokkuð markvert úr losun fyrir árið 2030. Bandaríkin, sem í dag losa um 6 gígatonn koltvísýrings árlega, ætla sér að vera búin að draga úr losun um 50-52 prósent árið 2030 miðað við árið 2005.
Ríki ESB, sem samanlagt losa rúmlega 3 gígatonn koltvísýrings árlega, hafa svo lýst því yfir að sameiginlega verði dregið úr losun um að minnsta kosti 55 prósent fyrir árið 2030 miðað við árið 1990. Ísland er sem kunnugt er, auk Noregs, í samfloti með Evrópusambandinu um þetta sameiginlega markmið.
Samkvæmt greiningum á Climate Action Tracker hafa þó hvorki Bandaríkin né Evrópusambandið komið löggjöf í gegn sem styður fyllilega við þessi markmið.
Biden-stjórnin í Bandaríkjunum er enn að reyna að koma loftslagslöggjöf sinni í gegnum þingið og mætti forseti landsins því nokkuð tómhentur á ráðstefnuna í Glasgow, en þó með fögur fyrirheit um að Bandaríkin muni leiða með góðu fordæmi og hafa Bandaríkin tekið sér sæti við borðið í svokölluðu Metnaðarfullu bandalagi ríkja á ráðstefnunni, ríkja sem leggja áherslu á að heiminum verði komið á þá braut að geta uppfyllt markmið um að jörðin hlýni ekki um meira en 1,5° út öldina.
Í löggjöfinni sem Biden stefnir að því koma í gegn um þingið er gert ráð fyrir því að 555 milljarðar bandaríkjadala renni á næsta áratug til aðgerða sem fallið geta undir hatt loftslagsaðgerða; meðal annars fjárfestinga í grænum lausnum og ívilnana.
Á vettvangi Evrópusambandsins var rúmur þriðjungur 750 milljarða evra kórónuveirufaraldurspakkans, sem samþykktur var fyrr á árinu, eyrnamerktur loftslagsaðgerðum af ýmsu tagi. Í greiningu Climate Action Tracker segir að þrátt fyrir samþykktir Evrópusambandsins í loftslagsmálum og markmið sem nálgist það að verða ásættanleg, sé misjafnt hversu vel einstaka ríki sambandsins fylgi áætlunum eftir heima fyrir.
Sérstaklega er fundið að því í mati Climate Action Tracker að aðildarríki ESB hafi mörg hver ekki sett sér áætlanir um að fasa út kolanotkun fyrir árið 2030.