Hefur þú velt fyrir þér hvað tónlistarmenn fá í sinn hlut fyrir spilanir í helstu tónlistarveitum og sölu á lögum í helstu stafrænu tónlistarverslunum nútímans, nú þegar fólk virðist flest vera hætt að kaupa plötur? Hvað þurfa þeir að selja mörg eintök eða fá margar hlustanir til að þéna bandarísk lágmarkslaun?
Ef þeir gefa plötuna sína út á eigin vegum nægir að selja 105 eintök. Ef þeir eru með plötusamning við útgefanda og selja lögin sín í gegnum helstu stafrænu tónlistarverslanir netheima á borð við iTunes þá þurfa þeir 11.354 niðurhöl til að ná lágmarkslaunum. Þeir tónlistarmenn sem eru á samningi hjá útgáfu, og láta hana hafa góðan hluta af tekjum sínum vegna streymis á tónlist sinni, þurfa að fá yfir eina milljón spilanir á mánuði hjá veitum eins og Deezer og Spotify til að ná bandarískum lágmarkslaunum.
Þetta kemur fram í nýrri gagnaskýringu David McCandless sem greint er frá í The Guardian. McCandless gerði sambærilega skýringu árið 2010 sem olli töluverðu uppnám innan tónlistargeirans.
Gagnaskýringin sem birtist á vef The Guardian.
Í skýringunni sinni fer McCandless yfir tölulegar staðreyndir ýmissa tónlistarfyrirtækja og –veita og sýnir út frá gögnum hvað listamenn geta átt von á að fá í sinn hlut vegna spilanna á lögum sínum hjá viðkomandi fyrirtækjum. Í skýringunni er farið yfir stöðuna hjá Bandcamp, iTunes, Amazon, sem selja tónlist, og hjá tónlistarveitunum Spotify, Deezer, Beats Music, Rhapsody, YouTube og Tidal.
Samhliða því að reikna út hvað tónlistarmaður geti átt von á að fá fyrir hverja einstaka spilum þá reiknar McCandless út hversu margar sölur eða mörg streymi hann þarf til að þéna lögbundin lágmarkslaun í Bandaríkjunum. Þau eru 1.260 dalir á mánuði, eða 173.174 krónur. Tölurnar innihalda ekki höfundarréttargreiðslur fyrir að semja lögin en reikna út hver meðatalsgreiðsla þeirra tónlistarmanna sem eru með samninga við útgáfufyrirtæki. Spotify segir til að mynda að greiðsla til útgefanda fyrir hvert streymi sé á bilinu 0,006 og 0,0084 dalir, 0,8 til 1,15 krónur. Samkvæmt greiningu McCandless er meðaltalsgreiðsla útgefenda til tónlistarmanna einungis brot af þeirri þó lágu upphæð, eða 0,001128 dalir, tæplega 0,16 krónur.
Tekið er fram í grein The Guardian að það að horfa einungis á greiðslu fyrir hverja hverja spilun geti verið misvísandi því það er mikill munur á þvi hversu margir eru að nota hverja veitu eða þjónustu fyrir sig. Beats borgar til að mynda meira á hverja spilun en Spotify en miklu, miklu fleiri nota Spotify en Beats. Því skilar Spotify tónlistarmönnum meiri tekjur en Beats. Ef notendafjöldi Beats eykst gerir viðskiptamódel veitunnar ráð fyrir því að greiðslur á hvert streymi lækki.
Upplýsingagraf McCandless er því ekki sönnun fyrir því að ein þjónusta sé betri en önnur fyrir tónlistarmennina.