„Margt sem vekur furðu í veðrinu á þessu sumri,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og ritstjóri veðurvefsins Blika.is. Í færslu á Facebook-síðu sinni bendir hann á að nú ætti fellibyljatíðin að vera að komast „á fullt skrið“, bæði á Atlantshafinu og í Kyrrahafinu. „Ekki það að maður sé að óska þeirra sérstaklega,“ segir Einar, „en til þessa hafa verið skráðir þrír hitabeltisstormar á Atlantshafinu, sá síðasti snemma í júlí! Enginn þeirra náði styrk fellibyls.“ Sömu sögu sé að segja frá Kyrrahafinu.
„Á Atlantshafinu var spáð fleiri fellibyljum en í meðalári eða 6-10 af styrk fellibylja og þar af 3 til 5 meiriháttar,“ segir Einar. „En hvorki bólar á þeim, né umræðu á vefnum meðal þeirra sem best þekkja hverju veldur nú.“
Einar er þó ekki eini veðurfræðingurinn sem er að velta þessu fyrir sér. Það gerir einnig veðurfræðingur bandaríska veðurfréttavefsins AccuWeather. Í frétt hans um málið segir að nú sé aðeins um vika eftir á þriggja mánaða tímabili sem einkennist oftast af mörgum fellibyljum í Atlantshafi og líkt og Einar segir hefur enn enginn hitabeltisstormur náð því að verða að fellibyl.
Sjávarhitinn hærri en venjulega
Hitabeltisstormar eru knúnir af gufunarvarma raka sem berst úr sjónum. Til þess þarf yfirborðshitinn að ná tilteknu marki. Einar bendir í pistli sínum á að sjá megi á nýrri sjávarhitagreiningu að ekki er sjávarhitanum um að kenna – hann er rauður (>28°C) á þessum þekktu fellibyljahafsvæðum. Einhver önnur skýring sé á því að fellibyljirnir hafi ekki látið sjá sig.
Adam Sadvary, veðurfræðingur hjá AccuWeather, er með þá kenningu að þurrt og rykugt loft frá Sahara-eyðimörkinni í Afríku sem og óvenjulegar vindáttir eigi þátt í því að „fellibyljatímabilið hefur verið kyrrlátt það sem af er“.
Síðustu ár verið metár
Fellibyljatímabilið í Atlantshafi nær yfirleitt hámarki á fyrri hluta septembermánaðar. Þrír hitabeltisstormar urðu í júní og júlí en enginn enn sem komið er í ágúst. Fari svo að ágúst verði laus við slíka storma er það aðeins í þriðja sinn frá árinu 1961 sem það gerist. Það var mjög óvenjulegt því tólf hitabeltisstormar urðu, þar af urðu átta þeirra að fellibyljum. Þeir geisuðu hins vegar allir í júní og júlí en enginn í ágúst. Það er því ekki óþekkt að frávik eigi sér stað milli ára hvað þetta varðar.
Árin 2020 og 2021 var hins vegar ákefðin gríðarleg. Í fyrra varð 21 hitabeltisstormur og árið þar áður voru þeir 30 sem er met frá upphafi mælinga.
Það er ekki útilokað að aðstæður breytist á næstu dögum og að hitabeltisstormur, jafnvel fellibylur, verði til í Atlantshafinu. Það er þó að mati veðurfræðings AccuWeather ólíklegt að slíkt gerist fyrir ágústlok.
„En mögulega springur þetta allt úr í september – hver veit?“ spyr Einar Sveinbjörnsson.