Frímerki og flögg. Póstkassar og peningaseðlar. Það er erfitt að komast um Bretlandseyjar án þess að sjá andlit Elísabetar II drottningar eða upphafsstafi hennar hér og þar. Stofnanir eru kenndar við hana, Vegabréfaútgáfa hennar hátignar er ágætt dæmi, og hver einasti lögregluþjónn er með upphafsstafi hennar í merki á húfunni.
Guð blessi drottninguna (God save the queen) verður ekki lengur lokalínan í þjóðsöngnum heldur Guð blessi kónginn. Þann fyrsta sem ríkir yfir breska samveldinu í rúmlega sjötíu ár, Karl III.
En það eru kannski peningaseðlarnir og myntin, sterlingspundin og penníin, sem eru hvað augljósasta áminningin um tilveru hennar og sess í bresku samfélagi. Sess sem sonur hennar þarf nú að reyna að fylla að henni látinni.
Þjóðarsorg ríkir í Bretlandi eftir andlát drottningarinnar. Og því er engra skyndilegra breytinga að vænta. Seðlar og mynt sem andlit hennar prýða verða áfram í gildi, það hefur Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, staðfest. En hann hefur einnig staðfest að umskipti munu eiga sér stað. Áætlun þar að lútandi verður þó ekki kynnt fyrr en að Bretar hafa fengið tíma til að syrgja Elísabetu.
Peningaprentvélarnar verða því ekki ræstar alveg á næstunni.
„Starfsfólk Englandsbanka vill senda innilegustu samúðarkveðjur til konungsfjölskyldunnar,“ sagði í yfirlýsingu bankans í gær. Seðlabankastjórinn Andrew Bailey sagði: „Ég er mjög hryggur yfir þeim tíðindum að hennar hátign, drottningin, sé látin enda hefðu flestir Bretar engan annan þjóðhöfðingja haft og að hennar yrði minnst sem mikillar fyrirmyndar landsins alls og samveldisins.
Andlit Elísabetar er ekki aðeins á breska sterlingspundinu heldur einnig á peningaseðlum og mynt sem notuð er í Kanada, Ástralíu, Nýja-Sjálandi og víðar í samveldinu.
Ekki stendur til, samkvæmt því sem breskir fjölmiðlar segja, að innkalla alla seðlana og myntina. Þess í stað verður þeim skipt hægt og bítandi út á næstu mánuðum.
Þetta verður ekki í fyrsta skipti sem slíkt er gert. Fyrir árið 1972 var einu pundi skipt í 20 skildinga (shillings) sem hver um sig jafngilti 12 penníum. Þannig voru 240 penní í einu pundi. Frá og með árinu 1972 voru skildingar lagðir niður og verðgildi á nýju penníinu varð 2,4 sinnum meira en áður hafði verið. Aðlögunartímabilið stóð þá í átján mánuði.
Þegar nýir og nútímalegir 50 og 20 punda seðlar voru kynntir til sögunnar fyrir nokkrum mánuðum með andliti Elísabetar, giltu þeir gömlu með myndum af frumkvöðlinum Matthew Boulton og verkfræðingnum James Watt, áfram í 16 mánuði. Svo vill til að þeir falla úr gildi nú í lok september.
4,5 milljarðar peningaseðla með andliti Elísabetar eru í umferð í dag – samtals um 80 milljarðar punda. Í fréttaskýringu The Guardian kemur fram að talið sé líklegt að umskiptin yfir í nýja seðla og nýja mynt, með myndum af Karli konungi, muni taka að minnsta kosti tvö ár.
Er Elísabet varð drottning eftir lát föður síns árið 1952 var mynd af henni ekki sett á peningaseðla. Það tíðkaðist ekki í þá tíð að gera slíkt. Þetta breyttist árið 1960. Þá var gefinn út 1 punda seðill með mynd af henni. Árið eftir var svo prentaður 10 skildingaseðill með andliti hennar á. Þessi þróun hélt áfram næstu árin og drottningin var sett á fleiri seðla.
Það tekur tíma að hanna hvern seðill. Til stóð að gefa út 10 skildinga seðil á síðari hluta sjöunda áratugarins. Búið var að hanna hann og á honum var mynd af drottningunni með skrauthatt. En svo breyttist allt. Ákveðið var að breyta peningakerfinu og skildingar voru aflagðir. 10 skildinga seðilinn var prentaður og gefinn út en innkallaður ekki svo löngu síðar. Ákveðið var að nýta hönnun hans á nýjan 50 pennía seðil en að lokum var sú ákvörðun tekin að gera 50 pennía mynt. Svo sá seðill var aldrei gefinn út.
Drottning – ekki kóngur – í stjórnarskrám
Elísabet II var þjóðhöfðingi í fjórtán ríkjum breska samveldisins. Í mörgum þeirra er því svo farið að orðið „drottning“ er beinlínis skrifað í stjórnarskrána. Þetta mun þýða, segir í frétt Guardian, að gera þarf stjórnarskrárbreytingar svo vísað sé í arftaka hennar, Karl III konung.
En það er ekki endilega víst að það verði gert. Stjórnarskránni verður ef til vill breytt á t.d. Jamaíka og í Belís, tveimur ríkjum samveldisins í Karabíska-hafinu, en tækifærið jafnvel nýtt til að rjúfa tengslin við Bretland. Rétt eins og Barbados gerði í fyrra. Í báðum fyrrnefndum löndum gengur nú öflug bylgja sjálfstæðisbaráttu yfir.
Einnig kann að vera að sambandsríki á borð við Papúa Nýju-Geníu, Solomon-eyjar, Túvalú, Atígva og Barbúda, Bahama-eyjar, Grenada, Sankti Kitts og Nevis sem og fleiri þurfi að breyta sínum stjórnarskrám, vilji þau að Karl hafi vald til að skipa þar ríkisstjóra. Í þessum ríkjum er ákveðin andstaða við samveldið en hún er ekki almenn – að minnsta kosti ennþá.
Hins vegar þarf ekki að breyta stjórnarskrám Ástralíu, Kanada og Nýja-Sjálands þar sem í þeim er gert ráð fyrir að arftaki bresku krúnunnar verði sjálfkrafa þjóðhöfðingi.