Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) og Bílgreinasambandið leggja til við efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að tekið verði upp nýtt notkunargjald á akstur raf-, vetnis- og tengiltvinnbíla, sem felur í grunninn í sér að rukkaðar verði sex krónur fyrir hvern kílómeter sem ökutæki er ekið. Á sama tíma leggja samtökin til að fallið verði að mestu frá öðrum boðuðum breytingum á vörugjöldum og bifreiðagjöldum, sem fela það í sér að slík gjöld verði lögð á bíla sem ganga fyrir rafmagni að nokkru eða öllu leyti í auknum mæli.
Í sameiginlegri umsögn samtakanna segir að þær breytingar sem stefnt sé að muni „ekki aðeins draga úr hvötum til orkuskipta í samgöngum heldur fela í sér að tekið verði skref aftur á bak“ og „bæði draga úr mun á kaupverði og rekstrarkostnaði rafmagns- og tengiltvinnbifreiða og eyðslugrannra bifreiða annars vegar og hins vegar eyðslufrekra ökutækja sem losa mikinn koltvísýring í notkun“.
Með öðrum orðum, að breytingarnar sem lagðar hafa verið til í frumvarpi fjármálaráðherra muni gera það fýsilegra en áður að fjárfesta í eyðslufrekum ökutækjum, sem sé í senn stílbrot og í helberu ósamræmi við þau markmið sem tíunduð séu í greinargerð frumvarpsins.
Í umsögn SVÞ og Bílgreinasambandsins segir að efni þeirra frumvarpsgreina sem um ræðir beri ekki aðeins með sér úrræðaleysi þegar að fjárþörf ríkisins komi heldur einnig skammsýni. „Langtímaáætlun orkuskipta í samgöngum virðist ekki til staðar þrátt fyrir að stjórnvöld hafi sett metnaðarfull markmið og fyrir liggi á vettvangi þeirra að í orkuskiptum í samgöngum liggur um þessar mundir besta tækifærið til árangurs í loftslagsmálum,“ segir í umsögn samtakanna, sem segjast einnig hafa vakið athygli á því á fundum með efnahags- og viðskiptanefnd að við stöndum nú á einstökum tímamótum.
„Hagsmunir ríkisins, almennings og bílgreinarinnar fara nær fullkomlega saman. Stjórnvöld vilja hvetja til orkuskipta, meðal almennings er eftirspurn eftir hreinorkubifreiðum og bifreiðum sem eyða litlu jarðefnaeldsneyti og framboðið er til staðar hjá bílgreininni. Forsendur hraðra orkuskipta eru sannarlega til staðar og bílgreinin er að ganga í gegnum umfangsmestu umbreytingar sem hún hefur nokkru sinni tekist á við. Fjölmörg ljón eru í veginum en það er hins vegar óþarft að fjölga þeim þegar vel er unnt er að komast hjá því,“ segir í umsögn samtakanna.
Bílaleigur fái afslátt
Í drögum að breytingatillögu sem samtökin sendu nefndinni er lagt til að vörugjöld verði útfærð með þeim hætti að þau hækki á eyðslufrek ökutæki sem losa mikinn koltvísýring og hert verði á svokölluðum losunarmörkum vörugjalds, þannig að fleiri ökutæki sem gangi fyrir jarðefnaeldsneyti beri vörugjöld en nú er.
Einnig er lagt til að áform um 5 prósenta lágmarksvörugjöld verði felld út, og sömuleiðis að falli verði frá verulegri hækkun lágmarksbifreiðagjalds og látið verði við það sitja að verðlagsuppfæra krónutölur. Í staðinn leggja samtökin til áðurnefnt notkunargjald á eigendur raf-, vetnis- og tengiltvinnbíla.
Bílaleigur ættu þó að fá afslátt af notkunargjaldinu sökum þess hve mikið bílar þeirra eru eknir, samkvæmt tillögu SVÞ og Bílgreinasambandsins, og tengiltvinnbílar myndu bara greiða helming notkunargjaldsins, en bera helming álagningar bifreiðagjalds, en það segja samtökin sanngjarnt í því ljósi að gert sé ráð fyrir slíkir bílar séu eknir að helmingi á rafmagni og að helmingi á jarðefnaeldsneyti.
Notkunargjald verði rukkað mánaðarlega
Sem áður segir leggja samtökin til að greiddar verði 6 krónur fyrir hvern ekinn kílómeter, sem gert er ráð fyrir að skili 1,5-2 milljörðum króna til ríkisins. Samtökin leggja til að á fyrsta árinu verði gert ráð fyrir 11 þúsund kílómetra akstri í notkunargjaldi allra ökutækja, eða 66 þúsund krónur á ári, svo byrja megi að leggja gjöldin á strax. Akstur undir eða umfram þessa 11 þúsund kílómetra komi svo til frádráttar eða viðbótar gjaldsins er það verði lagt á árið 2024.
„Sá sem ekur 1.000 kílómetra árið 2023 mun því aðeins greiða 6.000 kr. notkunargjald árið 2024 eða sem nemur 500 kr. á mánuði. Sá sem ekur 15.000 km sama ár mun hins vegar greiða 90.000 kr. á ári eða sem nemur 7.500 kr. á mánuði,“ segir í umsögn samtakanna, sem leggja til að notkunargjaldið verði innheimt mánaðarlega til að milda áhrif þeirra og auka meðvitund um áhrif þeirra í rekstri heimila og fyrirtækja.
Í breytingatillögu samtakanna segir að þar sem notkunargjaldið verði tengt raunverulegri notkun ökutækis hvetji það til þess að aðrir samgöngumátar verði nýttir ef kostur er, sem og þátttöku í fjármögnun samgöngukerfisins í takti við notkun.