Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar spurði Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra að því, á Alþingi í gær, hvort honum þætti koma til greina að segja upp raforkusamningi við stóriðjufyrirtæki í þágu orkuskipta, hvort það væri raunhæft og hvort það væri verið að ræða þennan möguleika í samtölum á milli milli ríkisstjórnarflokkanna.
Bjarni sagði í svari sínu að það væri hvergi í stjórnkerfinu verið að ræða um að segja upp eða draga úr orkuafhendingu til stóriðju í þágu orkuskipta, en tilefni fyrirspurnarinnar frá Sigmari voru meðal annars orð sem Orri Páll Jóhannsson þingflokksformaður Vinstri grænna lét falla á opnum fundi flokksins í Borgarnesi nýlega.
Efni fundarins var til umfjöllunar í Kjarnanum á sunnudag. Þar var haft eftir Orra Páli að ræða þyrfti hvort einhver hluti þeirrar orku sem aflað sé í dag og ráðstafað til stóriðju geti hugsanlega farið í það sem þurfi í almannaþágu – til að mæta fólksfjölgun og orkuskiptum. „Þetta er umræða sem við höfum ekki tekið. Og er ekki tekin fyrir í þessari skýrslu,“ sagði Orri á fundinum í Borgarnesi og veifaði grænbók Vilhjálms Egilssonar.
Sigmar sagði að það væri erfitt að átta sig á því hvernig ríkisstjórnin ætlaði að uppfylla orkuþörf og loftslagsmarkmið því að menn töluðu „í austur og vestur hver úr sínu sólkerfinu“ innan ríkisstjórnarinnar og bar svo fram spurningu sína, hvort ríkisstjórnarflokkarnir væru að ræða sín á milli um að draga úr afhendingu orku til stóriðjuvera.
...annað mál hvort hægt verði að framlengja alla samninga
Bjarni sagði í svari sínu að Sigmar væri að spyrja um tiltölulega afmarkaðan þátt umræðunnar, þ.e. hvort til umræðu væri að annað hvort segja upp eða draga úr orkuafhendingu til stóriðju.
„Ég vil nú meina að þegar menn taka svona til orða eins og hér var vísað til, þ.e. í umræðu um þessi mál, þá megi líka alveg sjá fyrir sér þann möguleika að samningar renni út og þá sé ekki hægt að endurnýja, þannig að það gæti gerst einhvern tímann í framtíðinni. En það er hvergi verið að ræða um þessa hluti í stjórnkerfinu,“ sagði Bjarni og bætti því við að fyrir sitt leyti teldi hann að aldrei hefði verið „jafn mikill ávinningur“ af viðskiptum við orkufrekan iðnað í landinu eins og einmitt í dag, sem væri „mjög jákvætt mál fyrir hagkerfið okkar“.
Sigmar brást við svari Bjarna og sagði „áhugavert að heyra þetta, að það sé hvergi verið að ræða þetta innan ríkisstjórnarflokkanna eða í stjórnkerfinu“.
„Áhrifamenn eins stjórnarflokksins og fylgjendur tala nefnilega mikið um þetta á fundum og í opinberri umræðu og ég efast ekki um að hæstvirtur ráðherra hefur tekið eftir því. Varðandi þann möguleika að hugsanlega megi sjá það fyrir sér að gera einhverjar breytingar þegar raforkusamningar renna út þá skilst mér nú að samningurinn í Straumsvík renni út 2036, svo dæmi sé tekið, og sá á Reyðarfirði árið 2048. Það er nú ansi langt seilst ef menn eru að hugsa um orkuskipti í því samhengi að ætla sér að sækja þann ávinning,“ sagði Sigmar.
Þingmaðurinn spurði Bjarna síðan að því hvort hann teldi „heppilegt“ að ríkisstjórnarflokkarnir töluðu „í austur og vestur í þessu mikilvæga hagsmunamáli“ þannig að „almenningur sitji eftir ringlaður og hafi ekki hugmynd um hvert ríkisstjórnin stefnir“.
Bjarni svaraði og taldi að það væri „allt of djúpt í árinni tekið að segja að flokkarnir tali út og suður þó að menn leyfi sér að viðra þá skoðun í opinberri umræðu að þeir myndu vilja sjá hærra hlutfall af orkunni sem við eigum til staðar nú þegar renna annað en í stóriðjuna“ og benti svo á þá staðreynd að orkufrekur iðnaður tekur um 80 prósent af allri orku sem framleidd er í landinu í dag.
„En það er ekki mín skoðun að þessi mál verði leyst varðandi orkuskiptin með því að draga úr því heldur þurfum við að framleiða meira. Við þurfum að spyrja okkur spurninga sem snúa að flutningskerfinu. Við sjáum það til dæmis núna um þessar mundir að Landsvirkjun er með áform um að reisa virkjun í Þjórsá og hefur umsókn um það til meðferðar hjá Orkustofnun og ég veit ekki betur en að sú umsókn hafi verið í meðferð frá júní 2021. Ef okkur liggur á að nýta þá hagkvæmu virkjunarkosti sem eru til staðar í landinu þá þurfum við líka að gá að því að stjórnkerfi okkar geti afgreitt hugmyndir innan einhverra skynsamlegra marka vegna þess að þetta er bara einn áfangi af mörgum sem þarf að klára til þess að þar verði hafin framleiðsla innan tíðar,“ sagði Bjarni.
Áður hafði fjármálaráðherra einnig vakið máls á því í svari sínu við fyrirspurn Sigmars að ríkisstjórnin sem nú situr, ólíkt þeim fyrri, náð að koma rammaáætlun í gegnum Alþingi og hefði einnig í stjórnarsáttmála lagt upp með að þétta flutningskerfi raforku í landinu.
Þörf væri á því „vegna þess að strönduð orka í kerfinu okkar er á margan hátt töpuð orka og kallar fram þörfina fyrir fleiri virkjanir sem er algjör synd ef við eigum orku en erum bara ekki að koma henni rétta leið,“ sagði Bjarni.