Jú, maður setur bara heimsmet. Ítali að nafni Fabio Zaffagnini fékk þessa hugmynd fyrir rúmu ári síðan. Hann langaði að sjá uppáhalds hljómsveitina sína spila í heimabæ sínum Cesena í Romagna í Norður-Ítalíu og velti fyrir sér hvernig hann færi að því. Svarið var að búa til heimsins stærstu rokkhljómsveit.
Foo Fighters spiluðu síðast í Romagna árið 1997 þegar hún fylgdi annari breiðskífu sinni eftir; The Color And Shape. Síðan hefur hljómsveitinni vaxið ásmeginn, og forsprakkinn Dave Grohl orðinn að einni stærstu rokkstjörnu í heimi.
Zaffagnini hóaði í vini sína sem hoppuðu á vagninn. Saman héldu þau svo áheyrnarprufur til að skipa þúsund manna hljómsveit sem mundi spila eitt lag með Foo Fighters, taka það upp á myndband og senda hljómsveitinni. Til að fá fólk í lið með sér sendu þau myndbandið hér að neðan á vefinn í vetur.
https://vimeo.com/115166028
Verkefnið fékk fljótlega mikla athygli, ekki aðeins á Ítalíu heldur um allan heim. Stærstu tónlistartímarit í heimi fjölluðu um þessa tilraun svo hópfjármögnun verkefnisins gekk smurt fyrir sig. Í kjölfarið gátu þau svo ráðið hljómsveitarstjórann Marco Sabiu til liðs við verkefnið en sá hefur unnið með mörgum af þekktustu tónlistarmönnum í heimi, til dæmis Luciano Pavarotti svo einhver sé nefndur.
Tæknileg útfærsla þessara stuttu en risastóru tónleika var ekki síður flókin og þurfti reynda tæknimenn til að koma þessu heim og saman. Flestir unnu frítt eða fyrir mjög lágar fjárhæðir enda hafði Zaffagnini aldrei dottið í hug að hugmyndin hans næði svo langt.
Það var svo 26. júlí síðastliðinn sem þúsund manna hljómsveit spilaði á stóru túni í Cesena Foo Fighters-lagið Learn to Fly undir stjórn Sabiu. Myndbandinu var svo dreift á vefnum í dag. Nú er bara að bíða og sjá hvort Dave Grohl og félagar svari kallinu. Hér að neðan má sjá tónleikana í heild sinni.
https://youtu.be/JozAmXo2bDE