Straumur flóttamanna frá Sýrlandi hefur verið gríðarlegur undanfarna mánuði og hafa fjölmargir komist inn fyrir landamæri Evrópusambandsins. Enn fleiri eru hins vegar strandaglópar í flóttamannabúðum í Sýrlandi, Tyrklandi og Líbanon svo aðeins fáein lönd séu nefnd.
Í flóttamannabúðunum er oft mikill skortur á nauðsynjum, vatni, mat og hreinlæti mjög ábótavant. Flestar hjálparstofnanir heims hafa beint athygli sinni að þeirri miklu neyð sem þarna hefur skapast og virðist aðeins aukast. Frá Íslandi er hægt að veita aðstoð eftir mörgum leiðum, hvort sem það er með beinum framlögum til þessara hjálparstofnana, með því að leggja þeim lið sem sjálfboðaliði eða einfaldlega með því að láta í sér heyra.
Gefðu peninga
Hægt er að senda SMS í númerið 1900 með skilaboðunum UNICEF og leggja þannig 1.900 krónur í sjóð barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna sem ætlaður er til að hjálpa börnum á flótta undan átökunum í Sýrlandi. Þá er hægt að leggja inn á neyðarreikning UNICEF og hringja í söfnunarnúmer. Frekari upplýsingar má nálgast hér.
Hægt er að styrkja hjálparstarf Rauða krossins fyrir sýrlenska flóttamenn með því að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 904 1500, 904 2500 og 904 5500. Þá bætist við upphæð sem nemur síðustu fjórum tölustöfunum við næsta símreikning.
SOS baraþorpin á Íslandi bjóða fólki upp á að styrkja sérstaka neyðaraðstoð fyrir börn á flótta. Hægt er að hringja í síma 907-1001 eða 907-1002 til að styrkja um 1.000 kr. eða 2.000 kr. Þá er hægt að leggja fé á reikning samtakanna. Nánar má lesa um hjálparstarf SOS hér.
MOAS, Migrant Offshore Aid Station, gerir út flóttamannaðastoð sína frá Möltu og aðstoða flóttafólk sem reynir að komast yfir Miðjarðarhafið í oft illa útbúnum bátum. Hægt er að lesa nánar um MOAS og leggja þeim lið á vefnum.
Læknar án landamæra (MSF) starfa um allan heim en nú er einn helsti álagspunkturinn á Miðjarðarhafi. Samkvæmt frétt á vef samtakanna var einn annasamasti dagur í sögu samtakanna á miðvikudag 2. september þegar 1.658 var bjargað af fólki á vegum MSF. Hægt er að styrkja MSF á vefnum.
Hægt er að veita frjáls framlög til Save the Children. Á vef samtakana segir að aðeins 50 dollara styrkur hjálpi til við að veita börnum fæðu, hlý föt og nauðsynjar á borð við bleyjur, sápu og aðrar hreinlætisvörur. Hægt er að leggja til framlag á vefnum.
Fjöldi fólks hefst við í flóttamannabúðum; karlar, konur og börn leggja líf sitt í hendur erlendra hjálparstofnana.
Réttu fram hjálparhönd
Fjölmargir hafa boðið sig fram sem sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins í verkefnum tengdum flóttamönnum. Hægt er að skrá sig sem sjálfboðaliða á vef Rauða kross Íslands.
Þeir sem uppfylla skilyrði Lækna án landamæra (MSF) geta lagt fram hjálparhönd og gerst sjálfboðaliðar. Meira en 2.500 alþjóðlegir starfsmenn eru á vegum samtakanna um allan heim en nú er einn helsti álagspunkturinn á Miðjarðarhafi. Samkvæmt frétt á vef samtakanna var einn annasamasti dagur í sögu samtakanna á miðvikudag 2. september
Láttu heyra í þér
Kæra Eygló Harðar — Sýrland kallar er hópur á Facebook þar sem fólk skrifar undir bréf til Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Meira en 16.000 manns hafa þegar skrifað undir bréfið.
Alþjóðastofnun um málefni flóttafólks og innflytjenda (e. International Organization for Migration) stendur fyrir átakinu #MigrantsContribute þar sem lögð er áhersla á umræður um það sem innflytjendur leggja til þeirra samfélaga þar sem þeir dvelja.
Láttu í þér heyra, taktu þátt í umræðunni og skoraðu á vini og vandamenn að gera slíkt hið sama. Margt smátt gerir eitt stórt.