Píratar eru enn á flugi, ef svo má segja. Mælast stærsta stjórnmálaafl landsins, með 32 prósent fylgi, samkvæmt nýjustu könnun Capacent. Það er fjórum prósentustigum minna en samanlagt fylgi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Þetta verða að teljast ótrúlegar tölur, sama hvernig á þær er litið, og það sem þessi nýjasta könnun staðfestir er að það er komin ákveðin festa í fylgið. Þó vissulega geti það lækkað hratt, og breytingar orðið með hinum ýmsu pólitísku vindum, þá verða það að teljast tíðindi að Píratar mælist svona stórir um þessar mundir, aftur og aftur. Nú eru um 20 mánuðir til kosninga og viðbúið að nokkur harka færist í leikinn á komandi þingvetri.
Spurningin er; hvernig munu Píratar fóta sig þegar stjórnmálaflokkarnir sem njóta góðs af öflugu innra starfi þrátt fyrir að mælast litlir í sögulegum samanburði - fjórflokkurinn svonefndi - fara að stilla strengi og blása í herlúðra? Þá fyrst mun reyna á kænsku Pírata.