Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins, nýtti tækifærið fyrir þingfrestun og sendi alls 16 fyrirspurnir til ýmissa ráðherra á síðustu klukkustunum þingvetrarins sem lauk í nótt. Hinn þingmaður Miðflokksins, Bergþór Ólason var ekki jafn stórtækur og Sigmundur en Bergþór sendi engu að síður inn þrjár fyrirspurnir.
Sigmundur var skýr og skorinorður í flestum af þeim fyrirspurnum sem hann hefur sent ráðherrum. Í fyrirspurn Sigmundar til forsætisráðherra um skilgreiningu spurði hann einfaldlega: „Hvernig skilgreinir ráðuneytið orðið kona?“ Foræsiráðherra fékk tvær fyrirspurnir til viðbótar frá Sigmundi um starfsmannamál í ráðuneytinu. Í annarri þeirra spurði hann um hver starfsmannafjöldi í forsætisráðuneytinu hefði verið í árslok árin 2009 til 2021 og hversu margir starfsmennirnir væru nú. Hin spurningin sneri að ráðningum en Sigmundur spurði hversu margir hefðu verið ráðnir til aðstoðar við ráðherra, ráðuneyti eða ríkisstjórnina í heild án auglýsinga árin 2016 til 2022.
Flestar fyrirspurnir Sigmundar rötuðu til umhverfis-, auðlinda- og loftslagsráðherra annars vegar og til matvælaráðherra hins vegar, fjórar á hvorn ráðherra. Þar að auki rataði ítarlegasta fyrirspurnin til matvælaráðherra en sú fyrirspurn snýr að makrílveiðum. Önnur fyrirspurn Sigmundar til matvælaráðherra sem tengist fiskveiðum snýr að fjölda útgerðarfélaga sem leyst hafa verið upp, seld eða sameinuðu öðrum félögum undanfarinn áratug. Þá spurði hann ráðherra um hversu margar jarðir í landinu væru í eigu erlendra lögaðila og hversu margir bændur eru eða hafa verið starfandi á Íslandi á árunum 2017 til 2022.
Hvernig er hamfarahlýnun skilgreind?
Sigmundur kom víða við í fyrirspurnum sínum. Hann beindi sjónum sínum til dæmis að neysluskömmtum, friðuðum húsum sem hafa verið rifin eða fjarlægð og árangri grunnskólanemenda í lestri. Sigmundur vildi einnig fá að vita hversu mikið lagning borgarlínu myndi kosta ríkið, hvernig biðtími eftir heilbrigðisþjónustu hefði þróast á undanförnum árum og hvaða viðurlögum yrði beitt ef lögbundin skylda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda verði ekki uppfyllt.
Loftslagsmálin voru Bergþóri Ólasyni, samflokksmanni Sigmundar, einnig hugleikin. „Er til skilgreining á hugtakinu hamfarahlýnun? Ef hún er til, hver er hún?“ spurði hann umhverfis-, auðlinda- og loftslagsráðherra. Bergþór beindi fyrirspurn til innviðaráðherra um endurmenntun til ökuréttinda og hann spurði heilbrigðisráðherra út í nýjan Landspítala.
Gæti komið til framhaldsfunda vegna Íslandsbankasölunnar
Síðasta þingfundi þingvetrarins lauk á öðrum tímanum í nótt, aðfaranótt fimmtudags. Þá höfðu þingmenn fundað sleitulaust frá því klukkan 11 fyrir hádegi á miðvikudag. Dagskráin var þétt og tóku mörg mál einhverjum breytingum á lokasprettinum.
Fundum Alþingis hefur nú verið frestað til 13. september. Þó má gera ráð fyrir að Alþingi verði kallað saman til framhaldsfunda þegar þinginu berst skýrsla ríkisendurskoðanda um sölu á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka, líkt og Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, benti á undir lok þingfundarins.
Birgir þakkaði þingmönnum fyrir samstarfið í ræðu sinni. „Eðlilega greinir þingmenn á um ýmis mál en hér á Alþingi hefur almennt ríkt góður andi og ríkur samstarfsvilji og vil ég þakka fyrir það. Sérstaklega vil ég láta í ljós ánægju mína með það ítarlega samkomulag sem þingflokkar gerðu undir lok þinghaldsins og framgang mála á síðustu dögum. Það er óskandi að okkur megi auðnast að vinna í þeim anda á komandi þingi,“ sagði þingforsetinn.