„Hvers konar viðbrögð eiga þetta eiginlega að vera? Frekar en að axla pólitíska ábyrgð á eigin klúðri ætla formenn flokkanna að henda starfsfólki og stjórn Bankasýslunnar undir vagninn.“
Þetta skrifar þingmaður Pírata, Andrés Ingi Jónsson, í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
Þingmaðurinn er með orðum sínum að bregðast við fréttum þess efnis að ríkisstjórnin hafi ákveðið að leggja niður Bankasýslu ríkisins.
Hann segir að áfram þykist ríkisstjórnin geta stýrt því hvernig embættisverk ríkisstjórnarinnar séu rannsökuð.
„„Ríkisstjórnin hefur því ákveðið,“ stendur í yfirlýsingunni, en það eru bara formennirnir þrír sem ákveða þetta sín á milli. Á sama tíma falla niður ríkisstjórnarfundir í tvær vikur – næstum eins og ekki sé hægt að hleypa öllum ráðherrum að borðinu. Það eru tólf ráðherrar í ríkisstjórninni og 38 þingmenn í stjórnarflokkunum. Hafa þau ekkert um þetta að segja? Fylgja þau bara geðþótta foringjanna þriggja?“ spyr hann í færslunni.
Hvers konar viðbrögð eiga þetta eiginlega að vera? Frekar en að axla pólitíska ábyrgð á eigin klúðri ætla formenn...
Posted by Andrés Ingi á þingi on Tuesday, April 19, 2022
„Árinni kennir illur ræðari“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir á Facebook-síðu sinni að ríkisstjórnin viðurkenni að hún hafi gert mistök við einkavæðingu Íslandsbanka en geri það með því að leggja niður Bankasýsluna.
„Þau hafa líklega leitað að lausn í páskaeggi og fengið málsháttinn „árinni kennir illur ræðari“,“ skrifar hann.
Ríkisstjórnin viðurkennir að hún hafi gert mistök við einkavæðingu Íslandsbanka en gerir það með því að leggja niður...
Posted by Sigmundur Davíð Gunnlaugsson on Tuesday, April 19, 2022
Telur fjármálaráðherra bera ábyrgð
Helga Vala Helgadóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir á Twitter að ábyrgð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sé ótvíræð og bundin í lög. „Hafi hann vanrækt skyldur sínar um yfirferð yfir tillögur Bankasýslu um söluna, aðferð og tilboð ber honum að gangast við þeirri handvömm og víkja úr embætti,“ skrifar hún.
„Hafi hann með fullri meðvitund samþykkt hvert einasta skref sem tekið var, eins og honum ber að gera ber hann einnig óskoraða ábyrgð og ber að víkja úr embætti. Það er ljóst að almenningur hefur orðið fyrir óafturkræfu og mjög kostnaðarsömu tjóni vegna verka fjármálaráðherra.“
Hún segir að þetta verði ríkisstjórnin að viðurkenna. „Annað er óboðlegt.“
Ábyrgð fjàrmálaráðherra er ótvíræð og bundin í lög. Hafi hann vanrækt skyldur sínar um yfirferð yfir tillögur bankasýslu um söluna, aðferð og tilboð ber honum að gangast við þeirri handvömm og víkja úr embætti. 1/3https://t.co/8zxpjIkRJl
— Helga Vala Helgadóttir 🔴 (@Helgavalan) April 19, 2022
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar tjáir sig einnig um málið á Twitter. Hún spyr: „Er verið að leggja Bankasýsluna niður fyrir að ... framfylgja ákvörðunum fjármálaráðherra?“ Hún segir jafnframt að ríkisstjórnin loki páskunum með því að krossfesta Bankasýsluna. „Halda svo áfram í páskafríinu og sleppa ríkisstjórnarfundi í dag.“
Ríkisstjórnin lokar páskunum með því að krossfesta Bankasýsluna. Halda svo áfram í páskafríinu og sleppa ríkisstjórnarfundi í dag 🐥
— Þorbjörg Gunnlaugs (@obbasigga) April 19, 2022