New York Stewart International. Fæstir nema harðsvíruðustu flugnördar hér á landi höfðu heyrt þennan flugvöll nefndan er flugfélagið Play tilkynnti fyrr í vikunni að til stæði að hefja daglegt áætlunarflug þangað frá Keflavík.
Um er að ræða lítinn fyrrverandi herflugvöll við bakka Hudson-árinnar, tæpum hundrað kílómetrum frá Manhattan, sem þjónar í dag ekki einu einasta millilandaflugi, en var á meðal áfangastaða norska lággjaldaflugfélagins Norwegian áður en félagið tók Boeing MAX-vélar sínar úr notkun.
Einungis tvö flugfélög halda uppi áætlunarflugi í gegnum völlinn í dag. Frontier Airlines flýgur þaðan til Orlando í Flórída fjórum sinnum í viku og þrisvar í viku til borganna Tampa og Fort Lauderdale. Flugfélagið Allegiant flýgur svo þaðan til fimm áfangastaða í Flórída, Georgíu og Suður-Karólínu.
Play sagði frá því í tilkynningu sinni um þessa nýju flugleið að lendingargjöld á Stewart-flugvelli væru um 80 prósentum lægri, sem geri það að verkum að félagið geti boðið upp á lægstu fargjöldin á milli New York og Evrópu.
Í tilkynningu Play sagði að Stewart-flugvöllur væri í um 75 mínútna akstursfjarlægð frá Times Square á Manhattan. Það stenst, ef engar umferðartafir eru á þjóðvegunum, samkvæmt útreikningum á ferðatíma í Google Maps. Þar má þó einnig sjá að búast má við því að ferðin á milli flugvallar og borgar taki nokkuð lengri tíma á álagstímum.
Flugvélar Play munu fara frá Stewart-flugvelli áleiðis til Keflavíkur kl. 18:45. Ef fólk ætlar sér að vera komið á flugvöllinn tveimur tímum fyrir flug, eða kl. 16:45, segir Google að reikna megi með því að ferðin frá Manhattan taki mögulega allt að tveimur tímum.
Samkvæmt áætlun Play munu flugvélar félagsins lenda á Stewart-flugvelli kl. 17:35. Ef gert er ráð fyrir því að hægt sé að halda af stað frá flugvellinum kl. 18:30 mun ferðalagið til Times Square taka á bilinu 75-120 mínútur, samkvæmt útreikningum Google.
Sérstök rútuþjónusta kemur til með að ferja farþega Play á milli flugvallarins og New York og munu miðarnir kosta 20 Bandaríkjadali fyrir fullorðna. Samkvæmt tilkynningu Play verður það ódýrasta leiðin til þess að fara á milli borgarinnar og flugvallarins, en einnig er bent á að hægt sé að taka bíl á leigu og finna leigubíla og lest sem fer til borgarinnar.
Til samanburðar tekur það rétt innan við klukkustund að komast frá bæði Newark-flugvelli og JFK að Times Square í New York með almenningssamgöngum frá þeim flugvöllum. Í tilkynningu Play er þess þó getið að á þeim flugvöllum sé afgreiðslutími í vegabréfaskoðun og töskuafhendingu lengri en á Stewart-flugvelli.
Play reiknar með mestri umferð til Dublin
Fjallað var um væntanlega komu Play til Stewart-flugvallar í staðarmiðlinum Spectrum News á þriðjudaginn. Í frétt miðilsins segir frá því að eigendur flugvallarins, sem eru hafnaryfirvöld í New York, séu að reyna að koma flugvellinum aftur af stað eftir tímabil lágdeyðu. Þar er nýlega búið að byggja sérstaka flugstöð fyrir alþjóðaflug.
Spectrum News ræddi við nokkuð mæddan rútubílstjóra á galtómum flugvellinum sem virðist vongóður um að Play færi honum aukin viðskipti, en fram kemur í fréttinni að vegna COVID-19 faraldursins hafi bæði American og JetBlue hætt flugi til Stewart-flugvallar.
Í fréttinni er einnig haft eftir Birgi Jónssyni forstjóra Play að félagið búist við því að frá Stewart-flugvelli verði tenging þaðan áfram til Dublin á Írlandi vinsælasta flugleiðin. Flug Norwegian um völlinn var einmitt beint til Dublin.
Ferðamálastjóri Orange County segist svo í fréttinni sérstaklega spennt yfir því að koma Play gæti fjölgað gestum sem heimsækja Legoland, sem er staðsett í bænum Goshen, nærri flugvellinum.
Norskt flugfélag skoðar líka flug til Stewart
Ekki er víst að Play verði lengi eina flugfélagið sem ætlar að nýta sér Stewart-flugvöll sem tengistöð við New York fyrir flug yfir Atlantshafið.
Nýtt norskt lággjaldaflugfélag, Norse Atlantic Airways, hefur einnig verið að skoða það að fljúga til Stewart-flugvallar, beint frá Ósló.
Í áðurnefndri frétt Spectrum News kom fram að það væri þó ekki búið að klára neina samninga við norska flugfélagið.