Heilt yfir er áætlað að kostnaður, vegna stofnunar nýs ráðuneytis sé í kringum 190 milljónir króna á ársgrundvelli. Núverandi ríkisstjórn hefur ákveðið að fjölga ráðuneytum úr tíu í tólf. Í þingsályktunartillögu sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur lagt fram um breytta skipan ráðuneyta innan stjórnarráðsins, og var birt á vef Alþingis síðdegis í dag, kemur þó fram að kostnaður við þá viðbót verði „minni en tvöfaldur sá kostnaður enda fjölgar ráðherrum aðeins um einn og takmarkast fjölgun stöðugilda aðstoðarmanna ráðherra, ritara og bílstjóra af því.“
Þar segir enn fremur að gert sé ráð fyrir að endanlegt mat á kostnaði vegna skipulagsbreytinganna komi fram við tillögugerð við aðra og eftir atvikum þriðju umræðu á Alþingi um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2022.
Þegar endurnýjað samstarf Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var kynnt greindu formenn flokkanna frá því að þeir ætluðu að fjölga ráðherrum í tólf. Þeir hafa aldrei verið fleiri hérlendis.
Auk þess voru málaflokkar færðir til og kynnt að heiti ráðuneyta myndu breytast. Í stað atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis koma félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, innviðaráðuneyti, matvælaráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.