Hið opinbera gæti átt auðveldara með að fjármagna félagslega þjónustu á sínum vegum ef skýr félagsleg markmið sem hægt væri að fylgja eftir væru sett fram samhliða skuldabréfaútgáfu þess. Þetta skrifar Kristbjörg M. Kristinsdóttir, fjármálastjóri Stefnis og stjórnarformaður IcelandSIF, í jólablaði Vísbendingar.
Áhugi á ábyrgum fjárfestingum
Samkvæmt Kristbjörgu hafa íslenskir stofnanafjárfestar aukið stórlega við þekkingu sína síðastliðin ár þegar kemur að ábyrgum fjárfestingum og hafa þeir flestir sett sér stefnur og verklag til þess að innleiða aðferðarfræði ábyrgra fjárfestinga með einhverjum hætti. Þar eru svokallaðar grænar fjárfestingar, sem eiga að hafa jákvæð umhverfisáhrif, sérstaklega áberandi.
Þó bætir hún við að grænir fjárfestingakostir eigi sér einnig skuggahliðar í svokölluðum grænþvotti, þar sem villandi upplýsingum er teflt fram til að láta fjárfestingar líta út fyrir að vera umhverfisvænni en þær virkilega eru. Til þess að koma í veg fyrir slíka háttsemi skipti máli að samræming upplýsinga og viðmiða á fjárfestingakostum sé skýr, en hún segir að nýjar reglur frá Evrópusambandinu sem taka gildi á næsta ári eiga að taka á þessu.
Blaðið birtist ef þú þrýstir á forsíðuna
Tækifæri í félagslega þættinum
Kristbjörg segir hins vegar að félagslegir þættir standi eftir, sem erfitt sé að skilgreina, en séu þó mikilvægir svo hagkerfi okkar geti orðið sjálfbærari. Yrðu þessir þættir betur skilgreindir gætu verkefni sem stuðla að félagslegri framþróun mögulega átt auðveldara með fjármögnun, þar sem áhugi fjárfesta á ábyrgum fjárfestingum hefur aukist.
Í því tilliti veltir Kristbjörg því upp hvort tækifæri liggi hjá ríki og sveitarfélögum, sem sjá um mörg þeirra verkefna sem eru af félagslegum toga, í að setja sér skýr félagsleg markmið samhliða útgáfu skuldabréfanna þeirra og standa skil á upplýsingum um stöðu þeirra mála. Verði það gert gætu félagsleg verkefni mögulega fengið auðveldari fjármögnun og betri kjör.
Á meðal mögulegra verkefna af félagslegum toga sem gætu fengið betri fjármögnun með þessum hætti nefnir Kristbjörg til að mynda heilbrigðisþjónu og húsnæðisuppbyggingu sem ýtir undir félagslega sjálfbærni.