Ríkisstjórn og Seðlabankinn ættu að fara varlega í peningastefnu og ríkisfjármálum hérlendis, þar sem verðbólguþrýstingur hefur aukist í Bandaríkjunum og hagvaxtarhorfur í Kína hafa versnað. Ráðlegt væri að minnka hallarekstur ríkissjóðs, hafa jákvæða raunvexti og gæta hófs í launakröfum, en reyna þess í stað að bæta kjör þeirra sem eru verst settir.
Þetta skrifar Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, í nýjasta tölublaði Vísbendingar, sem kom út á föstudaginn.
Verðbólguþrýstingur vegna peningaprentunar
Í grein sinni fer Gylfi yfir efnahagshorfur á heimsvísu, sér í lagi í Bandaríkjunum, Kína og Evrópu. Hann segir peningamagn í umferð hafa aukist töluvert á vesturlöndum síðan COVID-19 heimsfaraldurinn byrjaði í fyrravor og að ekkert lát verði á þeirri aukningu næsta hálfa til heila árið.
Samkvæmt honum mun aukning peningamagns umfram hagvöxt að lokum enda í vaxandi verðbólgu. Nú þegar sé farið að bera á skorti á vinnuafli víðs vegar um hagkerfið sem veldur hækkun launa, en Gylfi segir þessar launahækkanir muni leiða til verðhækkana.
Hins vegar segir Gylfi það vera óvíst hvort stýrivextir muni hækka í Bandaríkjunum, Evrópu og Bretlandi, þar sem slíkar hækkanir gætu haft í för með sér gjaldþrot fyrirtækja, aukna vaxtabyrði húsnæðislána og aukið atvinnuleysi þeirra sem verst hafa það. Því yrði örugglega vaxandi pólitískur þrýstingur á seðlabankana að halda vöxtum lágum.
Ísland í ágætri stöðu
Í slíkum aðstæðum gæti verðbólga farið vaxandi á Vesturlöndum og smitast til Íslands. Þó bætir Gylfi við að stjórnvöld hérlendis séu í ágætri stöðu til að bregðast við henni, þar sem skuldir ríkissjóðs, fyrirtækja og heimila séu hóflegar og peningamagn hafi ekki aukist umtalsvert.
„Við þessar aðstæður væri ráðlegt að fara varlega; að minnka hallarekstur ríkissjóðs, að hafa jákvæða raunvexti sem stuðla að innlendum sparnaði og jákvæðum viðskiptajöfnuði, að koma í veg fyrir mikið flæði spákaupmennskufjármagns inn í krónuna og jafna sveiflur hennar með inngripum,“ skrifar Gylfi. „Á vinnumarkaði verður að gæta hófs í launakröfum og reyna þess í stað að bæta kjör þeirra sem verst eru settir með þeim tilfærslukerfum ríkisins. Samkeppnishæfi atvinnulífsins skiptir sköpum,“ bætir hann við.
Hægt er að lesa grein Gylfa í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.