Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur segist hafa lært mjög margt á þeim fjórum árum sem hún hefur setið í borgarstjórn fyrir hönd Flokks fólksins. Í viðtali í þættinum Með orðum oddvitanna, hlaðvarpsþætti Kjarnans, er henni tíðrætt um þau „mannskemmandi“ vinnubrögð og menningu sem ríki í borgarpólitíkinni sem hafi oft orðið til þess að hana langar ýmist að gráta eða öskra. Tillögum hennar og annarra í minnihlutanum hefur í tugatali verið vísað frá án frekari umræðu „eins og hverri annarri drullugri tusku“. Komist Kolbrún inn í borgarstjórn og í meirihluta vill hún breyta þessu.
„Þú leggur dag við nótt ef þú ætlar virkilega að láta rödd þína heyrast,“ segir hún um þau tól sem fulltrúar minnihlutans nota sem felast m.a. í bókunum, tillögum og fyrirspurnum. „Ég ákvað það þegar ég uppgötvaði að ég væri ekki manneskjan sem væri með í ákvarðanatökunni að nota þetta eins vel og ég gæti.“
Hún segir að Flokki fólksins langi nú að komast á þann stað að geta komið einhverju til leiðar. „Draumurinn er að geta myndað meirihluta með fólki sem hefur áhuga á okkar málum, sem er að setja fólkið í fyrsta sæti og sjá til þess að allir geti átt mannsæmandi líf í borginni.“
Meðal áherslumála sé aðbúnaður barna, eldra fólks, fatlaðra og öryrkja. Henni er skemmt að heyra forystumenn flokka í núverandi meirihluta veifa gjaldfrjálsum leikskóla framan í kjósendur og segist ekki trúa öðru en að fólk sjái í gegnum slíkt. „Flokkur fólksins er ekki flokkur sem ætlar að koma sér á framfæri með ofurloforðum, brjálæðislegum töfralausnum.“
Börn sem búa við fátækt séu þau sem eigi að einbeita sér að. Um sé að ræða nokkur þúsund börn í Reykjavík. „Fyrir þennan hóp verður bara að vera frítt vegna þess að foreldrarnir eiga ekki krónu með gati til að gera neitt [þegar leigu og öðrum útgjöldum sleppir].“ Ekki eigi að „kreista hverja krónu“ út úr þeim sem minnst hafa á milli handanna.
Kolbrún vill að lögð verði áhersla á að eyða biðlistum barna sem bíða eftir þjónustu á borð við sálfræði- og talmeinaaðstoð. Þá vill hún fleiri sérskóla eins og Klettaskóla þar sem skóli án aðgreiningar, sem sé falleg hugmynd á blaði, virki ekki fyrir alla.
Hvað varðar húsnæðismálin segir hún þéttingu byggðar góða og gilda en að fleira þurfi að koma til. Byggja þurfi meira í úthverfunum og í framtíðinni ný hverfi. Ekki sé svo nóg að byggja, fólk verði að hafa efni á að kaupa sér íbúðir eða leigja.
Fólk fái að nota þann samgöngumáta sem því henti
Borgarlínan er ekki sérstakt baráttumál Flokks fólksins en fólk þurfi að geta komist á milli staða „tafarlaust“ með þeim leiðum sem það kýs. Núverandi meirihluti vilji koma bílum af götunum en „við viljum að fólk fái að nota sinn bíl ef það kýs og þarf“. Efla þurfi svo almenningssamgöngur samtímis enda séu mörg ár í það að borgarlína verði að veruleika.
„Ef þú ætlar að eyða biðlistum barna þá kostar það. Það kostar að fjölga fagfólki. Ef þú ætlar að sjá til þess að allir eigi þak yfir höfuðið þá kostar það,“ segir Kolbrún. Peningana megi fá með því að breyta forgangsröðun. Segir hún í „raun áfall“ að sjá hvernig farið hafi verið með fjármagn í átaki í borginni sem miði að stafrænni umbreytingu. Á þremur árum hafi verið varið þrettán milljörðum í verkefni sem þeirri vegferð tengjast sem hún segir að mörg hver hefðu mátt bíða. „Þetta er svo brjálæðisleg upphæð.“ Til samanburðar hafi borgin hingað til sett 1,7 milljarð í borgarlínuverkefnið.
Gengið verður til kosninga í Reykjavík líkt og öðrum sveitarfélögum landsins þann 14. maí. „Nú er spurningin, er fólk ánægt með mig og okkur í Flokki fólksins í borginni,“ spyr Kolbrún. „Nógu ánægt til að finna að þetta sé fólk sem það vill kjósa aftur?”
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan: