Páll Matthíasson, fráfarandi forstjóri Landspítala, segist í samtali við Kjarnann ekki vita það frekar en aðrir hvort Svandís Svavarsdóttir verði áfram heilbrigðisráðherra. Svandís segir sjálf að það hafi ekki verið ákveðið.
Í viðtali á mbl.is fyrr í dag var haft orðrétt eftir Páli, í tengslum við starfslok hans á spítalanum, að nú væru að verða breytingar þar sem „farsæll ráðherra sem hefur verið velviljaður spítalanum er að láta af embætti“.
Þrátt fyrir þetta orðalag segist Páll þó ekkert vita um hvort Svandís muni segja skilið við heilbrigðisráðuneytið.
Þurfi að láta af embætti til að geta tekið við nýju
Hann segir sinn skilning á orðalaginu um að „láta af embætti“ þó vera þann að til þess að geta tekið við embætti í nýrri ríkisstjórn með nýjum stjórnarsáttmála þurfi ráðherra fyrst að láta af því embætti sem hann var með í þeirri fyrri. En hann sé þó ekki stjórnsýslulögfræðingur.
Það hafi einfaldlega verið þetta sem hann átti við, en ekki það að hann vissi til þess að Svandís yrði ekki áfram heilbrigðisráðherra í þeirri nýju ríkisstjórn núverandi stjórnarflokka, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem útlit er fyrir að verði mynduð á næstu vikum.
Fyrir kosningar létu formenn beggja samstarfsflokka VG að því liggja að þeir vildu koma að heilbrigðismálunum.
Svandís sjálf segir við Kjarnann, sem áður segir, að ekkert sé búið að ákveða um ráðherraskipan í nýrri ríkisstjórn. Heilbrigðisráðherra segir að hvorki hún sjálf né Páll viti hver verður heilbrigðisráðherra – hvort það verði hún eða einhver annar.
Í samtalinu við mbl.is hlyti því að hafa verið rangt eftir forstjóra Landspítala haft, en Páll sjálfur reyndar staðfestir að hafa notað þetta orðalag.
Túlkun blaðamanns Kjarnans á orðum Páls í samtalinu sem birtist á mbl.is virðist því byggð á misskilningi einum, samkvæmt bæði Páli og Svandísi.
Tímabært að afhenda öðrum keflið
Um starfslok sín segir Páll annars að þau séu tímabær, en hann hefur verið átta ár í forstjórastarfinu á Landspítalanum.
„Þetta er heilmikið starf og viðeigandi að það sé skipt reglulega. Þetta eru góð tímamót til að afhenda öðrum keflið,“ segir Páll.