Nýtt íslenskt greiðslumiðlunarfyrirtæki, Alein Pay, verður sett á markað fyrir almenna notkun á næsta ári. Þetta segir Ingi Rafn Sigurðsson, stofnandi fyrirtækisins í samtali við Kjarnann. Samkvæmt Inga mun fyrirtækið bjóða upp á sjálfvirkar greiðslur sem geta einfaldað bókhald og minnkað áhættu í rekstri, en hann segir að íslensk fyrirtæki sem séu til í að taka þátt í þróun verkefnisins geti nú prófað greiðslumiðlunina.
Embættismenn með áhyggjur af erlendu eignarhaldi
Líkt og Morgunblaðið greindi frá í síðustu viku hafa embættismenn innan Seðlabanka Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og forsætisráðuneytisins viðrað áhyggjur sínar af mikilli samþjöppun á sviði greiðslumiðlunar og sölu Arion banka og Íslandsbanka á slíkum fyrirtækjum til erlendra aðila.
Samkvæmt blaðinu hefur þjóðaröryggisráð fundað fjórum sinnum um stöðuna og til hvaða aðgerða sé rétt að grípa. Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika Seðlabankans, sagði í viðtali við blaðið að bankinn ynni að uppbyggingu innlendrar og óháðrar smágreiðslulausnar fyrir íslensk fyrirtæki.
Færslur til birgja og leigusala í rauntíma
Ingi, sem er einnig stofnandi hópfjármögnunarsíðunnar Karolina Fund, segir Alein Pay bjóða upp á að hluti hverrar greiðslu sem á sér stað hjá rekstraraðilum fari sjálfvirkt til birgja eða leigusala í rauntíma, í stað þess að þær séu greiddar mánaðarlega. Með þessu segir Ingi að þröskuldurinn fyrir því að reka fyrirtæki lækki, þar sem minni hætta sé á að kröfuhafar þeirra fái ekki greitt.
Samkvæmt Inga verða greiðsluposar einnig óþarfir í nýja kerfinu, þar sem hægt verði að hlaða því niður í símanum. Kvittanir geta svo verið sendar til greiðenda í gegnum tölvupóst.
Þróun verkefnisins hefur staðið yfir síðustu misserin með stuðningi frá Rannís. „Við setjum Alein á markað fyrir almenna notkun á næsta ári,“ segir Ingi Rafn.