Útlendingastofnun hefur sett í loftið sérstakan vef, þar sem farið er yfir efnisatriði í jóladagatalinu sem sýnt er á RÚV nú á aðventunni, en það ber heitið Randalín og Mundi: Dagar í desember og fjallar meðal annars um fólk á flótta.
Á vef Útlendingastofnunar segir að jóladagatalið sé „vel tímasett“ því aldrei hafi áður jafn margir flúið til Íslands og á þessu ári, sem þýði að aldrei áður hafi jafn mörg börn á Íslandi átt bekkjarsystkin og nágranna sem hafi þurft að flýja heimalönd sína.
„Persónur þáttanna eru skáldaðar en áhorfendur velta því örugglega fyrir sér hvort þættirnir gætu gerst í raunveruleikanum. Randalín og Mundi eru klárir krakkar sem spyrja margra skynsamlegra spurninga um flóttafólk. Fullorðna fólkið í þáttunum á hins vegar oft ekki til nein svör við spurningum þeirra. Fyrir þá krakka, foreldra og kennara, sem eru að velta þessum spurningum fyrir sér, ákváðum við hjá Útlendingastofnun að taka saman upplýsingar í tengslum við efni þeirri þátta sem fjalla um málefni flóttafólks. Við vonum að upplýsingarnar nýtist sem grunnur að góðum samtölum á aðventunni og í framtíðinni,“ segir á vef Útlendingastofnunar.
Gagnrýni á dagatalið
Jóladagatalið var gagnrýnt nokkuð í upphafi mánaðar, í kjölfar þess að leikkonan Ilmur Kristjánsdóttir, sem er einn höfunda jóladagatalsins og túlkar jafnframt forstjóra Útlendingastofnunar í þáttunum, lét hafa eftir sér í skemmtiþættinum Vikunni með Gísla Marteini að hún hefði sett sér það áramótaheit að taka að sér hlutverk vondrar konu á árinu og uppfyllt það með því að leika forstjóra Útlendingastofnunar.
Andri Steinn Hilmarsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi sagði það nýjan lágpunkt „þegar útlendingastefna RÚV er orðin að meginþema í jólabarnaefni sem er framleitt“ og að embættismenn væru „settir í skotmiðin hjá stofnuninni með þessum hætti“.
Fyrir viku sagðist þáttagerðarkona á vegum RÚV, í þætti á RÚV þar sem hún var gestur og fjallað var um annan væntanlegan...
Posted by Andri Steinn Hilmarsson on Friday, December 2, 2022
Ásmundur Friðriksson þingmaður sama flokks tók svo málið upp á þingi og í kjölfarið sagði í leiðara Morgunblaðsins að alvarlegt væri að „RÚV skuli bjóða upp á barnaefni þar sem veist er að opinberum embættismanni og fluttur áróður um pólitísk málefni“.
Bara þingmennirnir á Alþingi sem breytt geti lögunum
Á vef Útlendingastofnunar eru settar fram útskýringar á þeim málum sem eru til umfjöllunar í þættinum á einföldu máli. Þar kemur meðal annars fram að þrátt fyrir að forstjóri Útlendingastofnun sé „svakaleg gribba“ sé það svo að í „alvörunni vinna engar gribbur hjá Útlendingastofnun“ og útskýrt er að fólkið sem vinni hjá Útlendingastofnun vilji fólki eins og Fatimu, karakter í þáttunum sem senda á úr landi, vel, „þótt það þurfi að segja henni að lögin séu þannig að hún fái ekki að vera áfram á landinu“.
„Það eru ekki allir sammála um hvernig lögin um hverjir megi búa á Íslandi eigi að vera. Þingmenn á Alþingi deila oft um þessi mál. Lögin sem gilda hverju sinni er þær reglur sem fólkið hjá Útlendingastofnun þarf að fara eftir þegar það skoðar hver má vera og hvar þarf að fara. Það eru bara þingmennirnir á Alþingi sem geta breytt lögunum,“ segir einnig í umfjöllun Útlendingastofnunar um efni þáttanna.
Til þessa hefur stofnunin birt upplýsingar um efnisatriði fjögurra þátta.