Stundum koma upp mál sem fá okkur til að hugsa um þjóðarsálina – svona að því gefnu að eitthvað sé til sem heiti þjóðarsál. Við heyrum fréttir og fáum staðfest að Bretar drekki bara te á milli þess sem þeir horfi á fótbolta, Danir skoli smörrebröd niður með einum köldum og að Þjóðverjar hafi neitað að vera á þessum lista því umsókn var ekki skilað í þríriti. Og svo eru það Svíarnir.
Stundum verðum við Íslendingar pirraðir á því að útlendingar spyrji okkur hvort við þekkjum Björk og trúum á álfa. Ætli Svíum líði ekki eins þegar sagt er að þeir séu hávaxnir og ljóshærðir og hafi skráðar og óskráðar reglur um allt. Síðustu viku hafa Svíar einmitt velt því fyrir sér hvort þjóðfélagið hafi gengið of langt þegar kemur að reglum. Að þessu sinni er ekki spurt hvenær maður drepi mann – heldur hvenær gult hús sé gult.
Ekki hættulaust að mála hús
Bærinn Mjölby liggur nokkurn veginn miðja vegu milli Linköping og Jönköping í Gautlandi eystra. Á íslensku mætti kalla hann Myllubæ enda nafnið dregið af gömlu sænsku orði yfir myllur. Íbúarnir eru um tólf þúsund í þessu frekar friðsama bæjarfélagi við Svartána, en flestir Svíar þekkja hann eflaust bara vegna lestarstöðvarinnar sem tengir saman fjölfarnar leiðir, meðal annars milli Stokkhólms og Gautaborgar. Í raun er ekki margt um Myllubæ að segja. Listinn yfir þekkta Myllubæinga er stuttur og ekki hafa íþróttaliðin gert neinar rósir. Þó ber að nefna að bæjarkirkjan þykir nokkuð snotur en við hana má meðal annars finna klausturrústir frá tólftu öld. Og hér hefst kannski loksins hin eiginlega saga.
Nú skal tekið fram að húsin í kring eru hvorki gul né græn og líklega er hægt að halda því fram að það breyti heildarmynd hverfisins.
Fyrir nokkru síðan ákvað myndlistarmaðurinn Bernth Uhno að flytja í Myllubæ. Hann keypti hús sem hafði staðið autt frá árinu 1981 og gerði það upp. Nú skal tekið fram að í Svíþjóð leggur fólk mikið upp úr því að hús séu fallega máluð. Stundum eru heilu hverfin í sama lit en oftast er blandað saman gulum, grænum, rauðum og jafnvel bleikum húsum.
Fátt gefur lífinu jafn mikinn lit og vel máluð hús. Bæjaryfirvöldum í Myllubæ fannst húsið hans Bernth hins vegar aðeins of mikið af því góða. Myndlistarmaðurinn ákvað nefnilega að beita kunnáttu sinni til að ná fram litbrigðum á húsinu, veggirnir eru því eilítið ljósgulari neðst en renna út í appelsínugult eftir því sem ofar dregur. Nú skal tekið fram að húsin í kring eru hvorki gul né græn og líklega er hægt að halda því fram að það breyti heildarmynd hverfisins. En rökin sem stjórnmálamennirnir notuðu þykja heldur hlægileg.
Listamaðurinn Bernth Uhno og umdeilda gula húsið hans í Myllubæ.
Svona litasamsetning er ekki sænsk
Anders Steen er bæjarfulltrúi fyrir Miðflokkinn og formaður í byggingarnefnd bæjarins. Hann sendi Bernth bréf þar sem þess var krafist að húsið yrði málað upp á nýtt. Í viðtölum við fjölmiðla var hann spurður hvers vegna þessi ákvörðun hafði verið tekin og svarið vakti óneitanlega athygli. „Svona litasamsetning er ekki sænsk“, sagði hann í viðtali við sænska ríkissjónvarpið. Þegar hann var beðinn um að útskýra nánar hvað hann ætti við sagði hann að í Svíþjóð héldi fólk sig við einn lit. Það væri nefnilega þannig, sagði Steen, að sænski guli liturinn væri einfaldlega sami guli litur yfir allan flötinn.
Samtök húseigenda í Svíþjóð mótmæla ákvörðuninni harðlega og telja að í fyrsta lagi sé sektin allt of há og að í öðru lagi hafi bæjaryfirvöld tekið sér allt of mikil völd.
Þrátt fyrir nótmæli heldur bæjarstjórnin sig við fyrri ákvörðun og krefst þess að Bernth máli húsið aftur. Hann hefur fram á haustið til að bregðast við en frá og með september þarf hann að borga sekt ef húsið er enn í sama lit. Já, eða öllu heldur – ekki í einum lit. Sektin er engin smáupphæð eða 22.500 sænskar á mánuði sem eru um 350 þúsund íslenskar. Samtök húseigenda í Svíþjóð mótmæla ákvörðuninni harðlega og telja að í fyrsta lagi sé sektin allt of há og að í öðru lagi hafi bæjaryfirvöld tekið sér allt of mikil völd.
Almenningur virðist styðja Bernth
Frá því á mánudag þegar SVT birti fyrstu fréttina um málið hefur stuðningur við Bernth vaxið dag frá degi. Ríflega tíu þúsund hafa líkað við stuðningssíðu á Facebook og tæplega 5000 hafa skrifað undir áskorun til bæjaryfirvalda. Þá var fyrstu frétt SVT um málið deilt tæplega 40 þúsund sinnum á Facebook. Í kjölfarið hafa bæjaryfirvöld reyndar breytt rökstuðningi sínum og halda því nú fram að gula húsið hafi neikvæð áhrif á menningarminjar í bænum. Standi maður við klausturrústirnar umræddu frá 12. öld sé guli liturinn á húsinu nefnilega allt of áberandi. En eins og fréttakona SVT benti á í þessari frétt er nóg að snúa sér í hina áttina við rústirnar til að sjá bensínstöð í gulum lit og því ekki kýrskýrt hvað það er við hús Bernths sem truflar svo mikið.
Þetta er reyndar langt í frá fyrsta mál sinnar tegundar í Svíþjóð. Dæmi eru um blá, fjólublá, gul og bleik hús sem stjórnmálamenn og byggingarfulltrúar gera athugasemdir við. Og viðbrögðin eru nánast alltaf þau sömu – nefnilega hvort þetta fólk hafi ekkert betra við tímann að gera.
Þegar þetta er ritað er alls óvíst hvernig sögunni lýkur. Hvort Bernth láti undan og endurmáli húsið, eða hvort stuðningur almennings fái bæjaryfirvöld til að skipta um skoðun. Leiðarahöfundur Aftonbladet bendir á að besta leiðin til að leysa málið sé að muna eftir því í næstu kosningum. Þangað til hlæjum við hin að ljóshærðu og hávöxnu Svíunum sem hafa skráðar og óskráðar reglur um allt. Það er nefnilega alveg ótrúlegt hvað Svíar eru duglegir að fara eftir reglum – nema auðvitað þegar þeir gera það ekki.
Hér má sjá hvernig hægt væri að leysa málið með því að mála húsið í erkisænskum litum.