Kabul Chawla, fjárfestir frá Indlandi, lifir í vellystingum í glæsihýsi á Manhattan á meðan mörg hundruð eignir sem hann á í Nýju Delí heima fyrir standa tómar. Indverskir hermenn sem eru komnir á eftirlaun hafa mótmælt fyrir utan íbúðirnar frá því í haust vegna þess að Chawla og byggingafélag hans, hafa ekki staðið við sitt, og sitja hermennirnir uppi húsnæðislausir, búnir að borga háar fjárhæðir fyrir búseturétt í íbúðunum.
Í ítarlegri umfjöllun New York Times segir að Chawla sé umsvifamikill í fasteignaviðskiptum á Manhattan í gegnum skúffufélög, sem haldi á stórum hluta skrifstofuhúsnæðisplássa í Time Warner Center háhýsinu. Umsvifin í New York vekja upp spurningar um hvaðan Chawla fái peningana og hvort hann sé búinn að eyða peningunum sem hann tók við frá hermönnunum í fasteignaverkefni á Manhattan.
Umfjöllunin er liður í ítarlegri umfjöllun New York Times um fasteignaviðskipti á Manhattan í New York þar sem peningarnir virðast streyma frá ýmsum jaðarmörkuðum inn í borgina í gegnum skúffufélög, þar sem endanlegir eigendur eru háttsett fólk víða um heim.
Í gær var fjallað um fjárfestingar stjúpsonar forsætisráðherra Malasíu, í gegnum skúffufélög og 33 ára gamlan fjárfesti, Jho Low, sem hefur keypt eignir og selt síðan áfram til stjúpsonar forsætisráðherrans.
Á morgun er boðuð umfjöllun um fjárfestingar frá Mexíkó.