Skipulagsráð Kópavogsbæjar samþykkti í upphafi mánaðar að láta auglýsa deiliskipulagstillögu að svokölluðum „Reit 13“ á Kárnesi. Kjarninn fjallaði nýlega um vinnslutillögu að skipulagi reitsins og athugasemdir sem um hana bárust, en nú er málið þar statt að nokkrar breytingar hafa verið gerðar frá vinnslutillögunni.
Helstu breytingarnar sem gerðar hafa verið eru þær að byggingarmagnið hefur verið minnkað úr 26.675 fermetrum niður í 24.995 fermetra og íbúðum fækkað úr 160 í 150. Landfylling í tengslum við reitinn verður minni, eða 730 fermetrar í stað 1.700 eins og fyrirhugað var í vinnslutillögu.
Byggðin hefur verið lækkuð frá því sem lagt var upp með. Eitt húsanna átti að vera með inndregna 5. hæð en hún er „farin“ og 4. hæðin á því húsi verður gerð inndregin. Þá hefur samfelldri húsalengju sem fyrirhuguð var við Þinghólsbraut verið skipt upp í tvö hús, eða tvo „byggingarmassa“ eins og þeir eru kallaðir í yfirliti yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið.
Nú þegar ákveðið hefur verið að auglýsa skipulagstillöguna, munu íbúar og aðrir hagsmunaaðilar aftur hafa tök á að senda inn athugasemdir vegna skipulagsins, en yfir hundrað athugasemdir bárust við vinnslutillöguna.
Þeim verður ekki svarað með formlegum hætti af hálfu skipulagsyfirvalda, heldur mun nú hefjast, að fenginni formlegri samþykkt bæjarstjórnar Kópavogs, annað auglýsingarferli þar sem íbúar geta komið athugasemdum á framfæri.
Ekki allir á einu máli í skipulagsráði
Rétt eins og þegar ákveðið var í skipulagsráðinu í Kópavogi um miðjan mars að láta vinnslutillöguna og athugasemdir sem við hana bárust verða grundvöll að áframhaldandi vinnu við gerð deiliskipulagstillögu, sem nú er komin fram, voru ekki allir bæjarfulltrúar á einu máli um hvernig ætti að standa að framhaldinu.
Þau Sigurbjörg Erla Egilsdóttir fulltrúi Pírata og Einar Örn Þorvarðarson fulltrúi BF/Viðreisnar sögðu að kallað hefði verið eftir auknu samráði í innsendum athugasemdum eftir kynningu vinnslutillögunnar.
„Meðal annars var óskað eftir kynningu á fyrirhugaðri uppbyggingu og heildarbyggingarmagni á stærra svæði Kársness, auk stefnu um hönnun og arkitektúr á svæðinu. Samþykkt skipulagslýsing gerir ráð fyrir 18.700 fermetrum en í deiliskipulagstillögunni er tæplega 34% aukning á byggingamagni. Af þessum sökum telja undirrituð mikilvægt að staldra við og fara í meira samráð við íbúa og hagsmunaaðila á svæðinu áður en lengra er haldið,“ sögðu þau Sigurbjörg Erla og Einar Örn í sameiginlegri bókun sinni um málið.
Í bókun fulltrúa meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, þeirra Hjördísar Johnson, Birkis Jóns Jónssonar, Kristins D. Gissurarsonar og Sigríðar Kristjánsdóttur, sagði á móti að tekið hefði verið tillit til framkominna athugasemda og „íbúðum fækkað, hæðir húsa lækkaðar, byggð aðlöguð enn frekar að aðliggjandi byggð og grænum svæðum fjölgað.“
„Rétt er að árétta að nú hefst lögbundið kynningarferli þar sem íbúum gefst enn frekari kostur á að koma að athugasemdum og ábendingum,“ sagði ennfremur í bókun fulltrúa meirihlutaflokkanna í Kópavogi, sem áður höfðu einnig tekið undir bókun Bergljótar Kristinsdóttur, fulltrúa Samfylkingar, um að nota ætti „öll ráð sem tiltæk eru til að íbúar nái að kynna sér tillöguna og þær breytingar sem gerðar hafa verið.“
Bergljót hafði lagt til að boðið yrði upp á þrívíddarmódel, sem auðvelt yrði fyrir íbúa „að mynda sér skoðun á hæð bygginga og legu þeirra í landinu. Íbúar eru ekki sérfræðingar í lestri skipulagstillagna og þurfa gögn við hæfi til að meta raunhæfni tillögunnar.
Bæjarfulltrúi fékk sex blaðsíðna bréf frá verktaka
Reiturinn hefur verið nokkuð hitamál í bæjarstjórnarpólitíkinni í Kópavogi síðustu misseri, eins og raunar fleiri þróunarreitir í bænum. Þess má geta að sérstakt framboð íbúasamtakanna Vinir Kópavogs, sem stofnuð voru vegna andstöðu við ýmis skipulagsáform í bænum, mun bjóða fram til kosninga í bænum í vor.
Theódóra S. Þorsteinsdóttir bæjarfulltrúi BF/Viðreisnar hefur gagnrýnt fyrirhuguð uppbyggingaráform á þessum tiltekna reit á Kárnesinu og meðal annars sagði frá því í umfjöllun Kópavogsblaðsins um reitinn í upphafi mánaðar að undir lok síðasta árs hefði hún fengið sent bréf frá fulltrúm fyrirtækisins Vinabyggð, sem er einn lóðarhafa á reitnum á Kárnesi.
Lýsti hún því bréfi sem „skriðtæklingu inn í stjórnsýslu bæjarins“ sem hefði verið ætlað að draga úr trúverðugleika hennar. „Af bréfi þeirra má skilja að ég hafi verið illa upplýst í umræðu minni um reit 13. Sannleikurinn er þó sá að ég lýsti því yfir að ég væri ósammála vinnubrögðunum og tillögunni sjálfri enda teygja menn sig mjög langt í að auka byggingarmagn, á lóð sem þeir hafa ekki sjálfdæmi um að skipulegga, þvert á vilja íbúanna. Þá hjóla menn í manninn, reyna að skrifa söguna upp á nýtt og breyta leikreglunum,“ hafði Kópavogsblaðið eftir Theódóru.