Árni Snævarr, sem starfar sem upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum í Brussel, segir töluverðrar spennu gæta meðal fólks í Brussel vegna hryðjuverkaógnar sem stjórnvöld í Belgíu hafa brugðist við af hörku. Hann segir hermenn einkum sýnilega í svokölluðu Evrópuhverfi í borginni, en Charles Michel, forsætisráðherra, tók ákvörðun um það í dag að 300 þungvopnaðir hermenn myndu aðstoða lögreglu í borginni við gæslustörf.
Árni Snævarr.
„Þeir gæta bænahúsa gyðinga, stjórnarbygginga og eru sýnilegir í svokölluðu Evrópuhverfi, þar sem Evrópusambandið er til húsa og mörg sendiráð. En það er talsverð spenna í samfélaginu vitaskuld og fólk er áhyggjufullt bæði vegna aðgerða öfgamanna sem virðast hafa verið kæfðar í fæðingu og líka tenginga við hryðjuverkin í Frakklandi. Það virðist vera einstaklega auðvelt að kaupa sér Kalashnikov í Brussel og þar fengu Charlie Hebdo morðingarnir vopnabúr sitt,“ sagði Árni Snævarr í samtali við Kjarnann.
Eins og greint var frá fyrr í dag, þá hafa lögreglusveitir víða í Evrópu staðið í umfangsmestu samræmdu lögregluaðgerðum sem gripið hefur verið til í álfunni í langan tíma, með það að markmiði að koma í veg fyrir frekari árásir íslamskra hryðjuverkamanna.
Í Belgíu hafa þrettán verið handteknir og tveir skotnir til bana í borginni Vervier, í Frakklandi hafa tólf verið handteknir og í Þýskalandi eru í gangi aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir árásir. Tveir hafa verið handteknir og húsleitir framkvæmdar á að minnsta kosti ellefu stöðum. Þá hefur viðbúnaðarstig við opinber svæði og byggingar verið hækkað, og eru vopnaðir lögreglumenn víða í eftirlitsstörfum.
Samkvæmt fréttum breska ríkisútvarpsins BBC hafa fimm af þeim þrettán sem handtekin voru í Belgíu gær, þegar verið ákærð fyrir að aðstoða mennina tvo sem voru skotnir eftir þeir hófu skothríð á lögreglu við undirbúning árása á lögreglumenn og lögreglustöðvar í Belgíu.