Stjórnvöld hafa í gegnum tíðina bókað flug meðal annars hjá Icelandair fyrir fólk sem hefur fengið synjun um alþjóðlega vernd á Íslandi. Slíkar ákvarðanir eru alfarið í höndum stjórnvalda og ber Icelandair að framfylgja þeim séu slík flug bókuð hjá félaginu.
Þetta kemur fram í svari Icelandair við fyrirspurn Kjarnans en til stendur að brottvísa tæplega 200 umsækjendum um alþjóðlega vernd úr landi á næstunni.
Kjarninn spurði hvort flugfélagið hefði flogið með umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem fengið hafa synjun hér á landi, og hvort það væri með tölur yfir hversu margir þeir væru og hvert þeir hefðu verið fluttir. Í svari Icelandair segir að þau haldi ekki utan um þær tölur.
Icelandair ekki heimilt að svara fyrir hönd viðskiptavina um möguleg flug
Kjarninn spurði einnig hvort Icelandair myndi fljúga með þá einstaklinga sem flytja á til Grikklands á næstu dögum og vikum. Ef svo er, hversu margir væru það og hvernig myndi fyrirtækið framkvæma þá aðgerð? Yrðu sérstakar vélar fengnar fyrir þetta fólk og fylgismenn eða myndi það fljúga í almennum ferðum?
Icelandair vísar á stjórnvöld varðandi það sem komið hefur fram í fjölmiðlum um fyrirhugaðan flutning fólks á næstunni en „Icelandair er ekki heimilt að svara fyrir hönd viðskiptavina sinna um möguleg eða fyrirhuguð flug,“ segir í svarinu.
Kjarninn spurði einnig hvort Icelandair hefði myndað sér stefnu gagnvart því að fljúga með þessa einstaklinga sem hlotið hafa synjun hér á landi og hvort fyrirtækið hefði fengið kvartanir vegna þessara fluga.
Icelandair svarar ekki þeim spurningum í svari sínu.