Ekki liggur fyrir hvort Icelandair hafi nýtt sér svokallaða ráðningarstyrki en fyrirtækið mun skoða að nýta þá þar sem það er möguleiki. Þetta kemur fram í svari Icelandair við fyrirspurn Kjarnans hvort fyrirtækið hafi nýtt sér slíka styrki.
Icelandair hefur nú þegar ráðið 800 manns til þess að búa sig undir sumarið, að því er fram kemur í frétt Fréttablaðsins sem birtist í vikunni. „Megnið eru áhafnir og starfsmenn í flugafgreiðslu. Fjöldi starfsmanna er um 1.500 í janúar en verður um 2.500 í sumar,“ segir í fréttinni.
Samkvæmt svari Icelandair til Kjarnans eru fyrstu endurráðningar flugfreyja og flugþjóna núna í júní og í kjölfarið mun fyrirtækið skoða þessi mál hvað varðar þennan hóp.
Ráðningarstyrkur er eitt af COVID-úrræðum stjórnvalda sem á að auðvelda atvinnurekendum að ráða starfsfólk og fjölga atvinnutækifærum þeirra sem eru án atvinnu. Atvinnurekandi getur fengið 100 prósent grunnatvinnuleysisbætur auk 11,5 prósent framlags í lífeyrissjóð í allt að 6 mánuði greiddar með nýjum starfskrafti eða allt að 342.784 krónur í styrk á mánuði.
Atvinnuleitandi má einnig hafa verið skemur en sex mánuði á atvinnuleysisskrá, eða 3 til 6 mánuði, og þá eru greiddar 50 prósent af grunnatvinnuleysisbótum. Atvinnurekandi sækir um ráðningarstyrk hjá Vinnumálastofnun en hámarkslengd samnings er 6 mánuðir.
Kjarninn beindi þeim spurningum til fyrirtækisins hversu hátt hlutfall af þeim flugfreyjum eða flugþjónum, sem hafa verið ráðin síðan í byrjun apríl, hefðu verið á atvinnuleysisbótum. Samkvæmt Icelandair liggja þær upplýsingar ekki fyrir og segir í svarinu að áður en til ráðningar kemur hafi fyrirtækið engar upplýsingar um hvort viðkomandi sé á atvinnuleysisskrá eða ekki.