Icelandair tilkynnti í dag uppsögn á lánalínu með ríkisábyrgð sem hefur gilt frá september árið 2020. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins, en flugfélagið sendi einnig frá sér tilkynningu þess efnis fyrr í dag.
Líkt og kemur fram á vef stjórnarráðsins var lánalínan, sem nam allt að 16,5 milljörðum króna, ætluð sem lánveiting til þrautavara fyrir flugfélagið ef ske kynni að það ætti í lausafjárvandræðum. Þessi lánveiting var ekki nýtt, en Icelandair segir að ábyrgð ríkisins á lánalínunni hafi verið nauðsynlegur þáttur á fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Þessi endurskipulagning gerði Icelandair kleift að varðveita þekkingu og viðhalda nauðsynlegum innviðum til að geta brugðist hratt við þegar markaðsaðstæður batna, samkæmt Icelandair.
Lánalínan átti að gilda í tvö ár, eða til september 2022. Hins vegar segir flugfélagið að vel hafi gengið í uppbyggingu félagsins undanfarna mánuði eftir krefjandi tíma síðastliðin tvö ár og að fjárhagsstaða þess hafi verið sterk við síðustu árslok og því hafi verið ákveðið að segja henni upp.