Stjórn Icelandair Group vill að sett verði á fót hvatakerfi fyrir framkvæmdastjórn félagsins og valda lykilstarfsmenn. Samkvæmt tillögu stjórnar sem lögð verður fyrir næsta aðalfund félagsins snýst kerfið um að hópurinn muni geta fengið allt af 25 prósent af árslaunum sínum í bónus í formi kaupréttar á hlutum í Icelandair Group. Fyrirhugað er að gefa út 250 milljón hluti í ár vegna kerfisins og alls 900 milljón hluti á þriggja ára tímabili. Miðað við markaðsvirði Icelandair Group í dag er virði þeirra hluta sem greiða á út sem kaupauka um tveir milljarðar króna. Hægt verður að innleysa umrædda kauprétti að þremur árum liðnum.
Þetta kemur fram í dagskrá aðalfundar Icelandair Group, en aðalfundurinn fer fram 3. mars næstkomandi og var birt í dag.
Þar segir að markmiðið með innleiðinguhvatakerfisins sé meðal annars sá að draga úr líkum á að lykilstarfsmenn yfirgefi Icelandair Group með litlum fyrirvara.
Töpuðu 13,7 milljörðum í fyrra
Icelandair Group tapaði 13,7 milljörðum króna á árinu 2021 miðað við gengi krónu í lok þess árs en félagið gerir upp í Bandaríkjadölum. Þar af tapaði félagið 5,1 milljarði króna á síðustu þremur mánuðum ársins.
Rekstrartap á síðasta ári var 17,7 milljarðar króna, en endanlegt tap dróst saman vegna þess að aðrar tekjur voru jákvæðar. Þar á meðal voru sala eigna, í Iceland Travel og Icelandair Hotels, og tekjufærsla vegna reiknaðra vaxta á vaxtalausri frestun á greiðslu skatta.
Í skýrslu tilnefninganefndar Icelandair Group, sem var birt í Kauphöll Íslands á mánudag, er lagt til að stjórn félagsins verði áfram skipuð sömu fimm einstaklingum eftir næsta aðalfund. Þar segir einnig að það sé viðvarandi áhætta fyrir félagið að lykilstarfsmenn hætti þar sem þeir fá ekki nægilega vel greitt fyrir störf sín, en þrír úr framkvæmdastjóri Icelandair Group hafa hætt störfum frá síðasta aðalfundi. Í viðtölum sem nefndin tók við stjórnendur og stjórnarmenn í félaginu kom fram að þeir teldu þörf á „sterkari varðveisluáætlun ásamt endurskoðuðu starfskjarafyrirkomulagi æðstu stjórnenda“.
Laun forstjóra hækkuðu um næstum 50 prósent
Einn lykilmannanna sem myndi fá kaupauka- og kaupréttargreiðslur ef bónuskerfið verður samþykkt á komandi aðalfundi er Bogi Níls Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Kjarninn greindi frá því í vikunni að hann hafi fengið 518 þúsund Bandaríkjadali í laun og hlunnindi á síðasta ári. Á árslokagengi ársins 2021 eru það 67,5 milljónir króna eða 5,6 milljónir króna á mánuði. Til viðbótar fékk Bogi Nils 119,6 þúsund Bandaríkjadali í lífeyrisgreiðslur, eða 15,6 milljónir króna á ofangreindu gengi. Það þýðir að laun, hlunnindi og lífeyrisgreiðslur hans á síðasta ári voru samtals 83,1 milljónir króna, eða rúmlega 6,9 milljónir króna að meðaltali á mánuði.
Laun Boga hækkuðu umtalsvert milli ára. Hann var með 355 þúsund Bandaríkjadali í laun á árinu 2020 og fékk þá 76 þúsund Bandaríkjadali í lífeyrissjóðsgreiðslur frá félaginu. Þegar þessar tölur eru umreiknaðar í íslenskar krónur á árslokagengi síðasta árs þýða þær að laun og hlunnindi Boga voru 46,3 milljónir króna á árinu 2020, eða tæplega 3,9 milljónir króna á mánuði, og lífeyrissjóðsgreiðslurnar alls 9,9 milljónir króna. Samtals voru laun, hlunnindi og lífeyrissjóðsgreiðslur Boga á árinu 2020 því 56,2 milljónir króna miðað við árslokagengi 2021, eða 4,7 milljónir króna á mánuði.
Laun, hlunnindi og lífeyrissjóðsgreiðslur Boga hækkuðu því um 48 prósent í Bandaríkjadölum talið milli ára.
Kjarninn sendi fyrirspurn til Icelandair Group vegna málsins og óskaði eftir útskýringum á launahækkun forstjóra. Í svari upplýsingafulltrúa félagsins sagði að breytinguna megi „langmestu leyti rekja til þess að á árinu 2020 tók forstjóri á sig 30 prósent launalækkun stærstan hluta ársins. Þess má geta í þessu samhengi að ársreikningur félagsins er í USD en öll laun á Íslandi, þ.m.t. forstjóra eru greidd í íslenskum krónum. Meðalgengi íslensku krónunnar gagnvart USD styrktist á milli ára og ýkir það hækkunina í ársreikningnum.“
Gengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal veiktist um 2,5 prósent á síðasta ári.