Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar þess að bréf umboðsmanns var birt fyrir hádegi í dag. Hún segist íhuga stöðu sína í stjórnmálum, hvort það sé sá vettvangur sem hún vilji starfa til framtíðar. Þar ítrekar hún jafnframt það sem hún hefur áður sagt; að hún hafi engan beitt óeðlilegum þrýstingi við rannsókn málsins.
Ráðherrann segist ætla að nýta það svigrúm sem henni hefur verið veitt í stjórnarráðinu, með flutningi dómsmála og ákæruvalds frá innanríkisráðuneytinu, til að skýra stöðu sína í málinu og hvernig það horfir við henni pólitískt. „[…] en einnig til að taka persónulega ákvörðunum um það með mínum nánustu hvort stjórnmálin eru minn framtíðarstaður eða hvort baráttan fyrir betra samfélagi verði betur háð utan kerfisins en innan þess.“
Í yfirlýsingunni gagnrýnir Hanna Birna athuganir umboðsmanns á samskiptum sínum við Stefán Eiríksson. Þar segir meðal annars: „Framsetning og vinnubrögð umboðsmanns í þessu máli eru þannig að mínu mati engu betri en margra þeirra blaðamanna sem hafa um málið fjallað og virðast hafa það eitt að markmiði að sanna sekt í máli sem nú er fyrir dómstólum eða gera eðlilegar áhyggjur ráðherra og ráðuneytis af öðrum mikilvægum trúnaðargögnum tortryggileg.“