Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur ekki viljað svara spurningum Kjarnans um hvort félag sem hann átti, OG Capital, hafi fengið greiðslur frá Orku Energy á árunum 2011 og 2012. Kjarninn sendi fyrirspurn til ráðherrans í kjölfar þess að hann opinberaði skattframtal sitt á Facebook í byrjun mánaðar, sem hann sagði að sýndi að engar fleiri launagreiðslur hefðu borist til hans frá Orku Energy. Fjölmiðilinn Stundin birti í kjölfarið frétt þar sem því var haldið fram að þótt Illugi hafi ekki fengið frekari laun frá Orku Energy hafi félag í hans eigu fengið greiðslur þaðan síðla árs 2012.
Fyrirspurn Kjarnans var einföld: fékk félagið OG Capital, sem þá var í eigu Illuga, greiðslur frá Orku Energy á árunum 2011 eða 2012, og ef svo var hversu háar voru þær greiðslur?
Í svari sem barst frá Illuga, í gegnum aðstoðarmann hans Sigríði
Hallgrímsdóttir, þann 15. október síðastliðinn sagði: „Ég hef birt og gert grein fyrir öllum upplýsingum er varða
tekjur mínar vegna ráðgjafarstarfa fyrir Orku Energy. Eins og skattskýrslur
mínar og eiginkonu minnar frá árunum 2012 og 2013 sýna, er einungis um eina
launagreiðslu að ræða frá Orku Energy. Þetta eru einu tekjurnar sem ég hef haft
frá Orku Energy fyrr og síðar. Hvað OG Capital varðar, þá fékk ég engin laun
eða arð frá því félagi, hvorki fyrr né síðar, sem áttu uppruna sinn hjá Orku
Energy.
Ég hef nú opinberað allt sem hægt er að
opinbera um tekjur mínar og reyndar líka Brynhildar konunnar minnar, á þessum
árum. Það er ekkert eftir til að opinbera eða svara“.
Í svari sínu segist Illugi ekki hafa fengið laun eða arð frá OG Capital. Hann svarar því hins vegar ekki hvort OG Capital hafi fengið greiðslur frá Orku Energy á árunum 2011 eða 2012. Kjarninn hefur ítrekað óskað eftir því að ráðherrann svari þeim spurningum sem til hans var beint. Við þeirri beiðni hefur ekki verið orðið.
Birti skattframtal sitt á Facebook
Illugi Gunnarsson hefur verið gagnrýndur víða fyrir tengsl sín við Orku Energy, ekki síst vegna heimsóknar til Kína í vor þar sem fulltrúar frá Orku Energy voru líka, en Illugi starfaði fyrir fyrirtækið árið 2011 auk þess sem hann hefur greint frá því að stjórnarformaður þess Haukur Harðarson hafi keypt íbúð hans vegna fjárhagsvandræða. Illugi og fjölskylda leigja nú íbúðina aftur af Hauki.
Áður en að Haukur keypti íbúð Illuga var hún færð inn í félagið OG Capital, sama félag og Stundin segir að Illugi hafa fengið greiðslur inn í. Haukur keypti síðan félagið með öllum eignum þess í lok árs 2013.
Illugi hefur sagt opinberlega að hann hafi aðeins fengið 5,6 milljóna launagreiðsluna frá Orku Energy og að sú greiðsla hafi verið vegna vinnu sem hann vann árið 2011. Hann birti launaseðil sinn vegna greiðslunnar í fréttum Stöðvar 2 í byrjun október.
Eftir birtingu skattframtalsins greindi Stundin hins vegar frá að miðillinn hefði heimildir fyrir því að eignarhaldsfélag sem þá var í eigu Illuga, OG Capital, hefði fengið 1,2 milljón króna greiðslu frá Orku Energy síðla árs 2012. Í kjölfarið birti Illugi skattframtal sitt og eiginkonu sinnar vegna áranna 2012 og 2013 á Facebook og sagði það sýna að engar launagreiðslur, arðgreiðslur eða aðrar greiðslur hefðu komið til hans eða eiginkonu hans á árinu 2012 eða 2013.
Illugi svaraði því hins vegar ekki í stöðuuppfærslunni hvort OG Capital hefði fengið umrædda greiðslu síðla árs 2012.