Það kennir ýmissa grasa í hlaðvarpsþættinum Bókahúsinu sem Sverrir Norland stýrir. Í níunda þætti er rætt við Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur sem gaf á dögunum út hina hugljúfu minningasögu Ilmreyr.
Bókin Ilmreyr er kveðja frá dóttur til móður en um leið óður til formæðra og -feðra sem háðu lífsbaráttu vestur á fjörðum.
Hólmfríður Matthíasdóttir, oft kölluð Úa, er einnig til viðtals en hún er útgáfustjóri Forlagsins og hugar vakin og sofin að því að ilmandi nýjar bækur rati til landsmanna.
Gunnar Theódór Eggertsson sem skrifað hefur fyrsta bindið í Furðufjalli, skemmtilegri ævintýrasögu fyrir krakka, ræðir um barnabókmenntir í þættinum, en bók hans nefnist Nornaseiður. Gunnar hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2008 fyrir fyrstu barnabók sína, Steindýrin, og var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2015 fyrir Drauga-Dísu.
Bókahúsið er hlaðvarp Forlagsins og þættina má nálgast á öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Í Bókahúsinu er rætt við höfunda en einnig aðra sem með einhverjum hætti koma að bókaútgáfu. Þættirnir hófu göngu sína nú í haust og hefur þáttastjórnandi farið um víðan völl í heimi bókmennta og bókaútgáfu.
Á dögunum var rætt við Þorgrím Þráinsson sem miðlar sinni hvetjandi og jákvæðu lífsspeki í bókinni Verum ástfangin af lífinu og sendir einnig frá sér ungmennabókina Tunglið, tunglið taktu mig nú í haust.
Þá hefur Sverrir einnig rætt við systkinin Sigrúnu Eldjárn og Þórarin Eldjárn en þau sendu frá sér myndskreytta ljóðabók, Rím og Roms fyrr á árinu, auk þess Sigrún á svo barnabókina Rauð viðvörun í jólabókaflóðinu og Þórarinn smásagnasafnið Umfjöllun. Þáttinn með viðtali við systkinin Eldjárn og Þorgrím Þráinsosn má finna hér að neðan.
Allir þættir Bókahússins eru aðgengilegir á vef Forlagsins.