Tillögur starfshóps um „griðarreglur“ fyrir skattsvikara sem hafa skotið eignum undan erlendis innihalda vægari skilyrði en í öðrum löndum sem hafa glímt við þetta vandamál, til dæmis Þýskalandi. Þar er þess krafist að upplýsingar um meint skattalagabrot séu ekki þegar í höndum skattayfirvalda þegar játning skattsvikara berst svo hann geti sloppið við refsingu. Þetta segir Indriði H. Þorláksson, fyrrum ríkisskattstjóri, í nýrri grein. Indriði var einnig aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar þegar hann var fjármálaráðherra og settur ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu í ráðherratíð hans.
Indriði H. Þorláksson.
Starfshópur sem skipaður var í byrjun desember til að skoða hvort lögfesta eigi svokallaðaðar „griðarreglur“ fyrir þá sem hafa skotið eignum utan skatti kjósi þeir að greiða skattaskuld sína skilaði niðurstöðu sinni í lok síðustu viku. Tillögur hópsins eru annars vegar í formi draga að frumvarpi um „griðarreglur“ og hins vegar í formi greinargerðar um lagaheimildir skattayfirvalda til að sporna gegn skattsvikum og ábendingum um úrbætur á þeim lagaheimildum.
Í drögunum að lagafrumvarpi um málið segir að þeir sem kjósi að nýta sér „griðarreglurnar“ geti frá fyrsta júlí næstkomandi og út júní á næsta ári til að skila skattaundanskotum sínum. Geri þeir það munu þeir ekki þurfa að sæta refsingu.
Skipuleg skattsvik, ekki vangá
Indriði birti í gær langa grein um tillögurnar. Þar segir hann að tillögur hópsins virðist við fyrstu sýn ekki slæm lagatæknileg lausn. „Skattsvikarar taka fé ófrjálsri hendi og það er ekki einfalt að uppfylla kröfu um jafnræði gagnvart þeim sem uppvísir hafa orðið að fjárdrætti eða þjófnaði með öðrum hætti. Markmiðið er um leið að bæta almannahag með betri skatthlítni og auknu jafnræði í skattframkvæmd í framtíðinni. Tillögur hópsins eru líklega hugsaðar sem leið að því marki í umhverfi þar sem viðurlög við ólíkum tegundum fjársvika eru þegar með mismunandi hætti. Þess þarf þó að gæta að hjá skattyfirvöldum og úrskurðaraðilum um skattamál hafa verið, eru og verða til úrlausnar mál þar sem beitt er viðurlagaákvæðum skattalaganna án tilslakana. Skattagrið til handa þeim sem iðrast eða óttast refsingu geta sett þá framkvæmd í uppnám ef ekki er farið fram af gát.“
Indriði bendir hins vegar á að tillögurnar virðist byggja á þeim forsendum að framteljandinn hafi af vangá, vanþekkingu eða vanrækslu ekki talið fram tekjur svo sem laun, þóknanir eða lífeyri sem hann hafi fengið erlendis. Flest bendi hins vegar til að fé íslenskra skattborgara í skattaskjólum sé af öðrum toga.
Indriði bendir hins vegar á að tillögurnar virðist byggja á þeim forsendum að framteljandinn hafi af vangá, vanþekkingu eða vanrækslu ekki talið fram tekjur svo sem laun, þóknanir eða lífeyri sem hann hafi fengið erlendis. Flest bendi hins vegar til að fé íslenskra skattborgara í skattaskjólum sé af öðrum toga. „Það er líklega að uppistöðu til fé sem komið hefur verið úr landi án skattlagningar. Til þess eru hafa verið margar leiðir svo sem kaup á erlendum hlutabréfum og stofnun félaga erlendis til frestunar á skattalegum söluhagnaði, arðgreiðslur ísl. hlutafélaga til eigenda sem skráðir eru erlendis, vextir, þjónusugreiðslur og þóknanir til tengdra aðila erlendis o.s.fr. Þetta er fé sem ekki hefur sætt neinni skattlagningu hér á landi. Það að telja ekki fram tekjur af því hefur ekkert með vangá eða minni háttar vanrækslu að ræða heldur er liður í skipulagðri starfsemi sem með einbeittum skattsvikaásetningi.“
Tillaga að auglýsingu
Að mati Indriða hefur starfshópurinn gert sér grein fyrir þessum vanda og því gerir hann ekki beina tillögu um viðurlög heldur eftirlætur stjórnmálamönnunum að gera það. „Því verður vart trúað að frumvarp þetta verði lagt fram án þess að fram fari ítarleg greining á áhrifum þess, ráðin bót á augljósum göllum þess og viðurlögin rökstudd m.a. í ljósi mikillar refsilækkunar. Ekki er óhugsandi að í skjóli sterkrar stjórnar verði frumvarpið lítt breytt að lögum. Verði svo er hér með gerð tillaga að auglýsingu á framkvæmd þess:
Hinum íslenska útrásamerði
með aura í skattparadís
býðst nú aflausn á útsöluverði
og æra á tombóluprís“