Seðlabanki Indlands, næsta fjölmennasta ríkis heims með 1,2 milljarða íbúa, hefur lækkað stýrivexti um 0,25 prósentustig og eru stýrivextir bankar nú 7,5 prósent í landinu. Þessi vaxtalækkun miðar að því að lækka vexti á lánum seðlabankans til banka á markaði, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Markmiðið með þessu er að örva hagkerfið og stuðla að frekari umsvifum í atvinnulífinu.
Verðbólga í Indlandi mælist nú rúmlega fimm prósent á ársgrundvelli, en verðbólgumarkmið seðlabankans er sex prósent, að því er segir í frétt BBC. Þessi ákvörðun kom sérfræðingum á markaði á óvart, og hækkuðu vísitölur hlutabréfamarkaða í kjölfarið, segir í frétt Wall Street Journal.
Hagvöxtur á Indlandi var rúmlega fimm prósent í fyrra, og gera spár ráð fyrir svipuðum vexti á þessu ári.
Landið er þekkt fyrir miklar efnahagslegar andstæður, mikið ríkidæmi víðsvegar en alvarlega fátækt á sama tíma. Stjórnvöld hafa unnið eftir markmiði um að stækka millistéttina í landinu, á undanförnum árum, með það að markmiði að fækka þeim sem eru í sárri fátækt og um leið að stuðla að heilbrigðum vexti.