Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur ráðið Ingu Hrefnu Sveinbjarnardóttur sem annan aðstoðarmann sinn. Þórlindur Kjartansson er hinn aðstoðarmaður hennar en hann hefur gegnt því starfi síðan í byrjun desember í fyrra.
Inga Hrefna var aðstoðarmaður Kristjáns Þórs Júlíussonar á meðan að hann gegndi embætti heilbrigðisráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á árunum 2013 til 2021, en Kristján Þór var ekki í framboði til þings í síðustu kosningum. Hún er auk þess formaður stjórnar Menntasjóðs námsmanna.
Þórdís Kolbrún var einnig ráðherra á síðasta kjörtímabili. Báðir aðstoðarmenn hennar frá þeim tíma hurfu til annarra verkefna þegar því lauk. Ólafur Teitur Guðnason ákvað að leita á önnur mið og Hildur Sverrisdóttir var kjörin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Aðstoðarmönnum fjölgað 2011
Lögum um Stjórnarráð Íslands var breytt árið 2011 með þeim hætti að heimild til að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra var útvíkkuð þannig að hver og einn þeirra má ráða tvo slíka. Auk þess var sett inn heimild fyrir ríkisstjórnina að ráða þrjá aðstoðarmenn til viðbótar ef þörf krefur. Í lögunum segir að „meginhlutverk aðstoðarmanns ráðherra er að vinna að stefnumótun á málefnasviði ráðuneytis undir yfirstjórn ráðherra og í samvinnu við ráðuneytisstjóra.“
Skömmu eftir að lögunum var breytt var ráðherrum fækkað í átta, en þeir höfðu verið tólf þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum árið 2009.
Síðan hefur ráðherrum verið fjölgað aftur jafnt og þétt með hverri ríkisstjórninni og í dag eru þeir orðnir tólf. Það þýðir að fjöldi leyfilegra aðstoðarmanna hefur líka aukist.
Alls má ríkisstjórnin því ráða 27 aðstoðarmenn sem stendur. Laun og starfskjör aðstoðarmanna ráðherra miðast við kjör skrifstofustjóra í ráðuneytum samkvæmt ákvörðunum kjararáðs.
Kostnaður við rekstur ríkisstjórnar aukist
Rekstur ríkisstjórnar Íslands, sem í felast launagreiðslur ráðherra og aðstoðarmanna þeirra, er áætlaður 714,9 milljónir króna á þessu ári samkvæmt fjárlögum. Það er um fimm prósent meiri kostnaður en áætlun vegna ársins 2021 gerir ráð fyrir, en þá átti reksturinn að kosta 681,3 milljónir króna.
Á fyrsta heila ári fyrri ríkisstjórnarinnar Katrínar Jakobsdóttur við völd, árið 2018, var kostnaður vegna launa ráðherra og aðstoðarmanna áætlaður 461 milljónir króna. Kostnaðurinn á þessu ári er því 55 prósent hærri í krónum talið.
Kostnaðurinn á þessu fyrsta starfsári ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks reyndist á endanum hærri, eða 597 milljónir króna. Því hefur kostnaðurinn vegna launa ráðherra og aðstoðarmanna þeirra alls vaxið um 117,9 milljónir króna frá 2018, eða 20 prósent.