Það er ekki nóg að bjarga fyrirtækjum þegar kreppir að heldur verður einnig að bjarga einstaklingum og þá sérstaklega þeim einstaklingum sem ekki geta unnið fyrir sér að mati Ingu Sæland formanns Flokks fólksins. Þetta sagði Inga í sérstökum umræðum um fátækt á Íslandi í þinginu í dag en Inga var málshefjandi.
Inga sagði að fyrsta sérstaka umræða hennar á Alþingi hefði farið fram í desember 2017 um sama mál. Hana langaði til að athuga hvað hefði áunnist á þeim tíma sem liðin er frá fyrri umræðum og til að spyrja hvernig stjórnvöld hefðu brugðist við fátækt á þessu tímabili.
Inga sagði ekki ætla að gera lítið úr því að hér á landi hafi fólk það betra en víðast hvar annars staðar. Hana grunaði að í andsvari Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, myndi hann benda á hve fáir búi við fátækt hér á landi. „Þess vegna langar mig að vita það, fyrst það eru svona fáir: Af hverju hjálpum við þeim ekki? Af hverju tökum við ekki utan um fátækt fólk og skömmumst okkar fyrir það að vera búnir að reisa slíka rammgerða fátæktargildru um þúsundir einstaklinga? Þeir eiga sér ekki möguleika á því að ná endum saman. Það er okkar er í okkar valdi að hjálpa þessum einstaklingum.“
Bjarni saknaði tillagna um aðgerðir í ræðu Ingu
Bjarni Benediktsson var til andsvara í umræðunum. Hann sagði málefnið mikilvægt á þessum tímum eins og alltaf. „Við getum sagt að lífskjör Íslendinga og málefni þeirra sem standa höllum fæti eru aldrei of oft rædd hér í þinginu. Það sem ég hef viljað gera í þeirri umræðu er að beina sjónum að aðgerðum sem geta skipt máli. Hvað er það sem við getum gert sérstaklega og ég verð að segja alveg eins og er ég saknað þess í framsögu háttvirts þingmanns sem hér hefur umræðuna, háttvirts þingmanns, Ingu Sæland, að það sé ekki bent á fleiri atriði sem geta skipt máli,“ sagði Bjarni.
Hann sagði tekjuskattsbreytingar hafa skilað 120 þúsund króna aukningu á ráðstöfunartekjum þeirra tekjulægstu auk þess sem skerðingarmörk barnabóta hefðu verið hækkuð sem og breytingar á örorku- og endurhæfingarlífeyri sem varð til þess að tekjur jukust um átta þúsund á mánuði fyrir þá allra tekjulægstu. „Ég veit þetta ekki háar tölur þegar maður horfir á einstaka liði en þetta leggst saman og fer að skipta verulegu máli, ekki bara í mánuðinum heldur á ársgrundvelli,“ sagði Bjarni um þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í.
„Við höfum verið í einhverjum umfangsmestu efnahagsaðgerðum sögunnar, varið hundruðum milljarða þegar allt er saman tekið í þeim tilgangi hundruðum milljarða og eru með þrjú hundruð milljarða halla á þessu ári, svo dæmi sé tekið, og þar eru sjálfvirku sveiflujafnarar verulega sterkir og þetta fer eitthvað í taugarnar á sumum hér í þingsal,“ sagði Bjarni undir frammíköllum þingmanna.
Inga setjist í stól Bjarna í tvo mánuði
Þingmenn stjórnar- og stjórnarandstöðu tóku þátt í umræðum og tóku undir það sjónarmið að mikilvægt væri að útrýma fátækt, þá sérstaklega með tilliti til barna sem lifa við fátækt. Undir lok umræðunnar tók málshefjandi, Inga Sæland, til máls öðru sinni. Að hennar mati væri ein lausn við vandanum sú að hún hreinlega tæki við embætti Bjarna til skamms tíma. „Fyrir það fyrsta skal leysa hana af í tvo mánuði og ég mundi alveg sko sannarlega stokka þetta kerfi heldur betur upp.“
Þá spurði hún hvers vegna ekki væri búið að afnema persónuafslátt til hátekjufólks, líkt og hennar sjálfrar og Bjarna, og færa það fjármagn niður til þeirra sem bágast hafa það. Hún sagði það ekki nóg að tala um tekjur þessa fólks fyrir skatt, heldur þyrfti að tala um ráðstöfunartekjur þeirra sem minnstar tekjurnar hafa.
Að endingu sagði Inga að verri fátækt annars staðar ekki réttlæta fátækt hér á landi, „Eitt er alveg víst að þó að einhver hafi það verra einhvers staðar annars staðar þá bætir það ekki stöðu þeirra sem eru fátækir og fastir í fátæktargildru á okkar landi í dag og ég segi bara: verði þeim að góðu sem ætlar að reyna að telja fátæku fólki trú um það þegar það á ekki fyrir salti í grautinn að það sé ekki fátækt.“
Setti út á borgaralaun og inngöngu í ESB
„Við erum að tala um alvöru málefni og við verðum líka að tala af alvöru um gögn og staðreyndir sem við höfum í höndunum um það hvað er í raun að gerast á Íslandi í dag. Heilt yfir er fátækt á Íslandi lítil í alþjóðlegum samanburði. Okkur hefur tekist vel að bæta stöðu þess hóps sem við erum sérstaklega að tala um. Lágtekjuhóparnir á Íslandi hafa séð kjarabætur kjarabætur á undanförnum árum. Það er engum blöðum um það að fletta. Við erum með minnstan ójöfnuð í Evrópu við erum með lægsta lágtekjuhlutfall sömuleiðis,“ sagði Bjarni Benediktsson þegar hann tók til máls öðru sinni, síðastur ræðumanna dagskrárliðarins.
Hann sagði að vel hefði tekist til hjá ríkisstjórninni við við að bæta hag þess hóps sem væri til umræðu og gaf lítið fyrir sumar þeirra hugmynda sem ræddar höfðu verið undir dagskrárliðnum. „Mig langar að koma aðeins inn á hugmyndafræðina sem mætir mér hér í þingsal í dag. Píratar tala um það að maður skilji ekki stöðu þessa fólks þrátt fyrir allan árangurinn sem við höfum verið að sýna, þrátt fyrir að við höfum með skattalækkunum og styrkingu bótakerfanna og fjármögnun slíkra styrkinga sýnt fram á það að við getum bætt stöðu þessara hópa. Ég beið bara eftir því að það kæmi hér ræða frá talsmanni Pírata í umræðunni um að það væri auðvitað þeirra framtíðarsýn, eins og við þekkjum úr sögunni, að hér gengju fjörutíu til fimmtíu þúsund manns um á borgaralaunum og gerðu ekki neitt og og mundu bara að vera vel settir af því,“ sagði Bjarni.
„Viðreisn kemur í raun og veru bara með eitt mál hér inn á borðið og það kemur svo sem ekkert á óvart, það er Evrópusambandið. Evrópusambandið myndi leysa þetta mál. Þó er það þannig í Evrópusambandinu að neyslan hrundi miklu meira heldur en á Íslandi,“ bætti Bjarni við í yfirferð sinni yfir ræður annarra þingmanna.