Fyrir þá sem ekki fylgjast með sænsku raunveruleikasjónvarpi, sem líklega eru flestir lesendur Kjarnans, er best að taka fram strax að Ingemar Stenmark sigraði í sænsku útgáfunni af sjónvarpsdanskeppninni „Lets Dance.“ Í þættinum keppir frægt fólk í samkvæmisdönsum og það er óhætt að segja að það sé misduglegt.
Ingemar Stenmark er til dæmis ekki góður dansari – reyndar er hann eiginlega mjög vondur dansari. En frá því að keppnin hófst fyrir um þremur mánuðum hefur legið í loftinu að hann myndi vinna. Keppnin og umtalið í kringum hana segir okkur nefnilega afskaplega margt um sænsku þjóðarsálina og svo auðvitað Stenmark sjálfan.
Hetjan sem allir elska
Þegar Stenmark var upp á sitt besta stöðvaðist Svíþjóð þegar hann keppti. Hlé var gert á störfum þingsins, sjónvörpum var rúllað inn í skólastofur og á götum úti safnaðist fólk saman fyrir utan raftækjaverslanir og horfðu á útsendinguna í gegnum búðargluggann. Hann varð heimsmeistari í svigi og stórsvigi árið 1978 og Ólympíumeistari í sömu greinum 1980. Hann fékk hins vegar ekki að keppa á Ólympíuleikunum 1984 þar sem hann taldist vera atvinnumaður, en þeir fengu ekki að keppa það árið. Hann er ennþá sigursælasti skíðamaður sögunnar með 86 gullverðlaun í svigi og stórsvigi en það voru einu greinarnar sem hann keppti í.
Aðdáun Svía hefur skilað sér í fjölmörgum verðlaunum og viðurkenningum handa honum sem einn af fremstu íþróttamönnum landsins. Stenmark þótti hins vegar vera feiminn og til eru mörg dæmi um viðtöl þar sem hann svarar spurningum einna helst með eins atkvæðis orðum.
Eitt sinn var Stenmark spurður hvernig hann hefði farið að því að sigra í einhverri keppninni. Svarið er fyrir löngu orðið klassískt í Svíþjóð: „De e bar å åk,“ það er bara að skíða. Í annað skipti þar sem ekki hafði gengið nógu vel vildi fréttamaðurinn meina að Stenmark hefði getað gert betur. „Ef þú heldur að þetta sé svona létt skaltu bara skíða sjálfur,“ svaraði Stenmark alvarlegur á svip.
Eins og margir aðrir var Stenmark ósáttur við skattastefnu sænskra stjórnvalda og þess vegna flutti hann lögheimili sitt til Mónakó á níunda áratugnum. Þar bjó hann til 2006 þegar hann flutti aftur til Svíþjóðar þar sem hann býr enn í dag. Síðustu ár hefur hann komið fram í mörgum sjónvarpsþáttum, meðal annars í Meistari meistaranna þar sem gamlir íþróttamenn keppa hver við annan í ýmsum greinum á milli þess sem ferill þeirra er rifjaður upp. Einhvern veginn lá það í loftinu að hinn 55 ára gamli Stenmark stæði upp sem sigurvegari enda kom það á daginn. Fáir bjuggust hins vegar við því að nokkrum árum síðar myndi hann samþykkja að taka þátt í danskeppni í sjónvarpi.
Skíðakappinn sýnir hér blaðaljósmyndurum gullverðlaunin sem hann hlaut á Vetrarólympíuleikunum í Lake Placid í Bandríkjunum árið 1980. Mynd: EPA
Brosandi Stenmark fær skammir frá dómurunum
Segja má að fjölmiðlar hafi gengið af göflunum þegar þetta fréttist. Frá fyrsta degi hafa slúðurblöðin verið full af fréttum og bæði Aftonbladet og Expressen keppast við að búa til krassandi fyrirsagnir. Yfirleitt snúast þær um leynivopn skíðamannsins, átök hans við dómarana eða viðbrögð þeirra sem í hverri viku féllu úr keppni þrátt fyrir að vera miklu betri dansarar.
Hörðustu gagnrýnendur Stenmarks voru dómararnir sem viku eftir viku minntu áhorfendur heima í stofu á að þetta væri danskeppni, en ekki vinsældakeppni. Nú er engum blöðum um það að fletta að skíðamaðurinn lagði mikið á sig enda kunni hann nánast ekkert að dansa áður en keppnin hófst. En það verður seint sagt að hann hafi taktinn í mjöðmunum þótt honum hafi tekist að brosa í gegnum heilu þættina. Í sænskum miðlum hefur einmitt verið sagt frá því að hingað til hafi bros frá Stenmark verið svona eins og hlaupársdagur, kæmi einu sinni á fjögurra ára fresti.
En allt kom fyrir ekki. Í úrslitaþættinum mætti hann hinni vinsælu söngkonu Marie Serneholt sem allir voru sammála um að væri miklu betri dansari – meira að segja eiginkona Stenmarks sagði það eftir úrslitin. Pabbi Marie var ómyrkur í máli og sagði að sjónvarpstöðin hefði mismunað keppendum. Ljóst væri að TV4 hefði frá upphafi viljað að Stenmark stæði uppi sem sigurvegari. Dómarinn Tony Irving var hundfúll eftir úrslitin og sagði að það besta við að keppninni væri lokið væri að nú þyrfti hann ekki að heyra nafnið Stenmark endalaust. Sjálfur var sigurvegarinn hissa og sagðist alls ekki hafa átt von á þessu.
Svíar eru æstir í raunveruleikasjónvarp
Áhugi Svía á raunveruleikasjónvarpi og lífi ríka og fallega fólksins er miklu meiri en flestir átta sig á. Fyrir utan tímaritin og dagblaðsgreinarnar keppast allar sjónvarpsstöðvar við að bjóða upp á þætti þar sem fræga fólkið spjallar við fræga fólkið, eldar með fræga fólkinu, gerir upp hús með fræga fólkinu eða keppir hvert við annað.
Eftirsóknin í 15 mínútna frægð er mikil, í Svíþjóð jafnt sem annars staðar.
Hér er hægt að sjá stefnumótaþætti þar sem bændur leita sér að maka og þætti þar sem fólk sem er skuldugt upp fyrir haus fær aðstoð með fjármálin. Hér má fylgjast með öryggisvörðum í neðanjarðarlestarkerfi Stokkhólms að störfum og svo er auðvitað boðið upp á sænskar útgáfur af Big Brother og ástardramanu Paradise Hotel þar sem ungt fólk með magavöðva, húðflúr og gervibrjóst reynir að láta líta út fyrir að það sé jafnvel enn vitlausara en það er í raun og veru. Síðast þegar auglýst var eftir keppendum í Paradise Hotel sóttu ríflega 2000 um fyrsta sólarhringinn en umsóknir voru fleiri en tíu þúsund þegar uppi var staðið. Eftirsóknin í 15 mínútna frægð er mikil, í Svíþjóð jafnt sem annars staðar.
Það átti þess vegna ekki að koma neinum á óvart að Ingemar Stenmark skyldi sigra í Lets Dance. Fyrir utan að vera einn dáðasti sonur þjóðarinnar var þátttaka hans uppskrift að raunveruleikadrama af bestu gerð með átökum, umdeildum ákvörðunum og klúrnum bröndurum þáttastjórnandans.
Sjálfur segist Stenmark ætla að taka sér hlé frá fjölmiðlum næstu mánuði og njóta lífsins með fjölskyldunni. Hann vill ekki meina að sigurinn hafi verið ósanngjarn, reglurnar séu einfaldlega þannig að fólkið heima í stofu kjósi og það hafi kosið hann. Enn ein gullverðlaunin í safnið.