Ingibjörg Ólöf Isaksen bæjarfulltrúi á Akureyri varð hlutskörpust í póstkosningu Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Líneik Anna Sævarsdóttir alþingismaður var önnur og Þórarinn Ingi Pétursson varaþingmaður og bóndi varð þriðji.
Svæðismiðlarnir Akureyri.net og Austurfrétt segja báðir frá þessu, en niðurstöður flokksins í kjördæminu voru kynntar í kvöld. Póstkosningunni lauk í lok marsmánaðar.
Oddviti listans í síðustu kosningum var Þórunn Egilsdóttir, en hún þurfti að segja skilið við þingstörfin vegna erfiðra veikinda. Þingmaðurinn Líneik, sem var í öðru sæti listans í síðustu kosningar sóttist eftir oddvitasætinu í kjölfarið, en það gerði einnig Ingibjörg, bæjarfulltrúi á Akureyri.
Alls voru 2.207 manns á kjörskrá í póstkosningunni.
Niðurstaðan varð eftirfarandi:
- Ingibjörg Ólöf Isaksen, framkvæmdastjóri Læknastofa Akureyrar. 612 atkvæði í 1. sæti
- Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Fáskrúðsfirði. 529 atkvæði í 1.-2. sæti
- Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi Grýtubakkahreppi. 741 atkvæði í 1.-3. sæti.
- Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðahrepps. 578 atkvæði í 1.-4. sæti.
- Halldóra Hauksdóttir, lögmaður Akureyri. 547 atkvæði í 1.-5. sæti.
- Kristinn Rúnar Tryggvason, bóndi Kelduhverfi. 496 atkvæði í 1.-6. sæti.
Aðrir sem tóku þátt í póstkosningu flokksins voru Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Karítas Ríkharðsdóttir, blaðamaður frá Raufarhöfn og Jónína Brynjólfsdóttir, viðskiptalögfræðingur á Egilsstöðum.