Í Peking er gengið í garð tímabil hins mikla innikulda. Sjálfir kalla Kínverjar þetta tímabil reyndar qing ming er mætti þýða sem „heiðskýrt“ eða „heiður himinn“ en það nafn á að sjálfsögðu rætur í gamla samfélaginu. Þá markaði þessi tími bara enn einn sigur vorsins í stríðinu við veturinn. Nú til dags aftur á móti verður gríðarlegt bakslag í vorkomunni einmitt á þessum tímapunkti. Ástæðan er sú að þá slökkva stjórnvöld á miðstöðinni sem kynt hefur híbýli Norður-Kínverja yfir veturinn. Hefur þetta þau áhrif að það kólnar hratt inni (þó það haldi vissulega áfram að hlýna úti). Innihitinn fer úr þægilegum 22+ gráðum á selsíus niður fyrir hinar krítísku 18 gráður um mánaðarmótin mars-apríl því sólin er enn of máttlaus til að smjúga í gegn um þykka veggi nútímabygginga. Setur fólk upp loðhúfur og trefla er það gengur inn í hús en fækkar klæðum þegar það fer út.
Eina ráðið gegn innikuldanum er að flýja heimili sitt. Mjög vinsælt er þá að fara í vorlautarferðir. Breiða heilu fjölskyldurnar í 3-4 ættliðum úr sér á sólríkum reitum undir nýútsprungnum blómum kirsuberjatrjánna og sötra te daglangt. Einnig er vinsælt að halda hita á kroppnum með íþróttaiðkun af ýmsu tagi og verða gestir frá fjarlægum löndum þá stundum vitni að allsérkennilegum líkamsæfingum. Hlaupa sumir innfæddir afurábak og blaka höndunum um leið eða klappa. Ber ósjaldan við að annars dagfarsprúðir karlar sem tilsýndar virðast vera á rölti úti í garði dragi skyndilega stórar svipur upp úr pússi sínu og byrji að keyra þær af mikilli grimmd út í loftið. Láta þeir smella í ólunum og verður af þessu hávaði eins og í byssubardaga. Þá er og algengt að eldri konur safnist í hnapp á togum úti og leiki sér að því að halda tuðru á lofti. Minnir þetta á fótboltakempur hita upp fyrir leik, þó upprunalega sé æfingin sennilega skyldari kínverskri fornknattspyrnu heldur en vestrænum nútímabolta.
Sölvi Geir Ottesen, sem sést hér skalla boltann í leik með íslenska landsliðinu, gekk til liðs við Jiangsu-dáðadrengina fyrir þetta tímabil. Það gerði Viðar Örn Kjartansson líka.
Fornknattspyrnan eða cuju varð til á hinum frjósömu sléttum Gulafljóts 2-3 hundruð árum fyrir Kristsburð. Skrifaðar heimildir eru fyrir því að sigursælir konungar er þar byggðu ríki sitt hafi stundað „cuju“ sér til hressingar og indisauka. Síðar munu þessar konunglegu æfingar hafa þróast í vinsæla íþróttagrein er náði fullum blóma á tímabili Song-keisaranna (960-1279). Var þá að finna sparkvelli á hverju götuhorni í Kína og breiddist knattspark geysihratt til annarra landa svo sem Japans, Kóreu og Víetnams. Atvinnusparkarar komu til sögunnar og lét keisarinn byggja himneskan fótboltavöll í hallargarði sínum og bauð þangað bestu spörkurum heims. Cuju-stjörnur voru helsta fyrirmynd æskulýðsins í austri allt þar til mið-asískir og evrópskir barbarar lögðu Kína undir sig og tímabil hnignunar tók við. Hver styrjöldin rak aðra. Glansinn máðist af mennigunni. Skuggi lagðist yfir knattspark.
Segja sumir að það hafi verið Maó sem svo innleiddi nútímaboltann í Kína. Aðrir draga það í efa því hann hafi aldrei dvaldist erlendis svo nokkru næmi. Miklu líklegra sé að það hafi verið Deng Xiaoping er eigi heiðurinn af þessu en hann lærði í París og mun hafa farið á alla knattspyrnuleikina á ólympíuleikunum 1924. Hvað um það, knattspark hefur endurheimt sinn sess í kínversku samfélagi. Almenningur elskar fótbolta. Hann vill að Kína komist úr hundraðasta sæti á styrkleikalista FIFA og leiðtogar landsins segjast vera að vinna í málinu.
Til að flýta þróun boltans hafa Kínverjar leitað til fjölda erlendra þjálfara, sálfræðinga, markaskorara og leikstjórnenda. Þar hafa Íslendingar lagt gjörva hönd á plóg því tveir af okkar bestu spilurum gera nú garðinn frægan hjá kínverska úrvalsdeildarliðinu Jiangsu-dáðardrengjum. Skoruðu Sölvi Geir Ottesen og Viðar Örn Kjartansson báðir mark í sigri liðsins gegn Shijiazhuang snemma í síðasta mánuði. Ég styð tækniyfirfærslu af þessu tagi en leiði stundum hugann að því hvort leynivopn Kínverja liggi e.t.v. nær en margan grunar. Eru konurnar sem halda á sér hita á vorin í boltaleik týndi hlekkurinn milli kínverskrar fornknattspyrnu og framtíðar-heimsmeistaraliðs Kína? Varðveita þær gamla tækni sem Kínverjum mun fyrr eða síðar takast að snúa upp á nútímann? Eða geyma þær e.t.v. reglurnar sem heimurinn mun að lokum spila fótbolta eftir?