Forsætisnefnd Alþingis hefur borist kæra gagnvart Sigurði Inga Jóhannssyni formanni Framsóknarflokksins og innviðaráðherra fyrir brot á siðareglum Alþingis. Þetta staðfestir Birgir Ármannsson forseti Alþingis við fréttastofu RÚV í dag.
Fram kemur hjá RÚV að gert sé ráð fyrir að erindið verði tekið fyrir á næsta fundi forsætisnefndar. Ekki liggi fyrir hver lagði inn kæruna.
Forsagan er sú að Sigurður Ingi viðhafði rasísk ummæli um Vigdísi Häsler framkvæmdastjóra Bændasamtakanna í þar síðustu viku á Búnaðarþingi þegar hann vísaði til hennar sem „þeirrar svörtu“.
Sigurður Ingi hefur ekki viljað endurtaka hvað hann sagði nákvæmlega og ekki útskýrt af hverju aðstoðarmaður hans, Ingveldur Sæmundsdóttir, sagði að hún hefði orðið vitni að atburðinum og að það væri „algjört bull“ að ummælin hefðu fallið. Síðar kom í ljós að hún var ekki nálægt þegar Sigurður Ingi lét ummælin falla.
Vissi hvað hún heyrði
Vigdís sendi frá sér yfirlýsingu á mánudaginn í síðustu viku þar sem hún sagðist vita hvað hún heyrði og hvað var sagt. „Ég hef aldrei látið húðlit, kynþátt, kynferði eða annað skilgreina mig. Ég hef alltaf talið að verk mín og gjörðir töluðu fyrir sig sjálf, en núna tel ég mig knúna til að tjá mig um það sem gerðist. Ég stend með sjálfri mér þegar kemur að þessu, ég veit hvað ég heyrði, ég veit hvað var sagt. Ég neita að bera ábyrgð á þeim orðum sem ráðherrann viðhafði í minn garð. Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein og grassera á öllum stigum samfélagsins. Þeir smætta verk einstaklinga og gjörðir niður í lit eða kyn,“ sagði hún í yfirlýsingunni.
Þá funduðu þau Sigurður Ingi síðastliðinn föstudag og birti Vigdís færslu á Facebook í framhaldinu þar sem hún sagði að þau hefðu átt „hreinskilið, heiðarlegt og opið samtal“.
Sagðist Vigdís hafa meðtekið afsökunarbeiðni Sigurðar Inga og að hún hefði upplifað hana sem einlæga. Málinu væri lokið af hennar hálfu.