Markaðsvirði samfélagsmiðilsins Instagram er 35 milljarðar dala, rúmlega 4.400 milljarðar íslenskra króna. Þetta hefur Business Insider eftir greinanda Citi bankans, Mark May. Til að setja þessa tölu í samhengi þá var verg þjóðarframleiðsla á Íslandi í fyrra 1.873 milljarðar króna, eða rúmlega 40 prósent af markaðsvirði Instagram.
Það virðist því vera að Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, hafi veðjað á réttan hest þegar hann greiddi einn milljarð dala fyrir Instagram í apríl 2012. Hann hefur nefnilega 35faldað þá fjárfestingu miðað við mat Citi. Gangi spár um tekjur Instagram á næsta ári eftir er ljóst að kaupin á Instagram munu verða ein þau bestu í viðskiptasögunni.
Auglýsingatekjur farnar að streyma inn
Kaup Facebook á Instagram voru gagnrýnd víða á sínum tíma, enda tekjur Instagram engar á þeim tíma sem kaupin áttu sér stað. Margir virtust eiga í vandræðum með að sjá hvernig þessi myndasamfélagsmiðill ætlaði sér að ná í tekjur. En Zuckerberg sá mikil tækifæri í Instagram.
Í síðustu viku var tilkynnt að Instagram væri komin með fleiri notendur en Twitter, en þeir eru yfir 300 milljónir. Notendur Instagram eru líka 1,8 sinnum virkari en notendur Twitter.Og í þessum gríðarlega fjölda notenda, sem er auk þess mjög virkur á miðlinum, telur Facebook að liggi tækifæri til að græða ótrúlegt magn af peningum.
Í dag græðir Facebook lítið á Instagram. Auglýsingasala á miðlinum hófst enda ekki fyrr en á síðari hluta árs 2013 í Bandaríkjunum. Instagram tókst samstundis að laða að sér mjög verðmæta auglýsendur á borð við Adidas, Ben & Jerry´s, Burberry, General Electric, Levi´s, Lexus, Macy´s, Michael Kors, PayPal og Starwood. Instagram hleypti síðan auglýsendum utan Bandaríkjanna að í ár.
May býst við því að árið 2015 verði árið sem Instagram, og raunar aðrar fjárfestingar Facebook sem ekki tengjast grunnrekstri fyrirtækisins beint, muni fara að hala inn fé. Miðað við þann vöxt sem orðið hefur í auglýsingasölu hjá Instagram býst hann við að tekjur fyrirtækisins gætu orðið um 2,7 milljarðar dala, um 340 milljarðar króna, á árinu 2015.