Interpol alþjóðalögreglan lýsir nú eftir Viktor Janúkóvíts, fyrrum forseta Úkraínu, sem hrakinn var frá völdum í mótmælunum fyrir rétt tæpu ári síðan. Janúkóvíts flúði til Rússlands og heldur sig þar í náð rússneskra stjórnvalda.
Er þetta stefnubreyting að hálfu alþjóðalögreglunnar því í desember sagði Vítalíj Jarema, aðalsaksóknari í Úkraínu, að Interpol hafi neitað því að gefa út alþjóðlega handtökuskipun á Janúkóvíts og sex aðra fyrrum hátt setta menn í ríkisstjórn hans, vegna þess að málið væri drifið af pólitískum ástæðum.
Í handtökuskipun Interpol er Janúkóvíts ákærður fyrir að hafa notað almannafé til einkanota, auðgunarbrot og spillingu.
Ólíklegt þykir að Janúkóvíts verði handtekinn í Rússlandi fyrir nokkrar sakir en heima í Úkraínu leggur almenningur mikla áherslu á að forsetinn fyrrverandi verði sóttur til saka fyrir morð á mótmælendum á Frelsistorginu í Kænugarði síðasta vetur.
Dómur yfir fyrrverandi ráðamönnum í Úkraínu er jafnframt talinn mikill prófsteinn fyrir nýja ríkisstjórn landsins og forsetann Petró Porosjenkó.
Ráðgjafi í innanríkisráðuneyti Úkraínu lét hafa eftir sér þegar Interpol vísaði málinu frá í síðasta mánuði að fyrrverandi ráðamenn væru „stjórnvaldsglæpamenn, þá helst morðingjar, og gagnvart okkur er alls ekki augljóst hvers vegna þetta fólk er ekki á alþjóðlegum listum yfir eftirlýsta glæpamenn“.