Píratar eru tilbúnir að verja minnihlutastjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Samfylkingar falli án þess að taka sæti í slíkri ríkisstjórn. Þetta sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi, í Silfrinu í dag.
Samanlagt eru þessir þrír flokkar með 27 þingmenn en ef sex þingmenn Pírata bætast við þá yrðu 33 þingmenn á bakvið slíka ríkisstjórn gegn 30 sem myndu standa gegn henni. Heimildir Kjarnans herma að þessi hugmynd hafi verið rædd umtalsvert innan Samfylkingar og Pírata sem sá valkostur sem Framsóknarflokki og Vinstri grænum standi til boða kjósi flokkarnir ekki að endurnýja stjórnarsamstarfið. Til greina kemur að reyna að fá Flokk fólksins til að styðja einnig við minnihlutastjórnina gegn því að ná saman við hann um helsta kosningamál hans, bætta grunnframfærslu viðkvæmra og jaðarsettra hópa á Íslandi. Þá myndi fjöldi þeirra þingmanna sem styddi minnihlutastjórnina fara í 39.
Innan bæði Framsóknarflokks og Vinstri grænna hefur verið fyrirvari á stjórnarsamstarfi við Pírata af ýmsum ástæðum og með þessari lausn er hægt að komast framhjá því skilyrði Pírata að þátttaka í ríkisstjórnarsamstarfi velti á því að ný stjórnarskrá verði innleidd á næsta kjörtímabili.
Með 33 þingmenn á bakvið minnihlutastjórn
Framsókn, Vinstri græn, Samfylking og Píratar, ræddu saman um myndun ríkisstjórnar eftir kosningarnar 2017. Þá höfðu flokkarnir saman 32 þingmenn en hafa nú, líkt og áður sagði, 33 þingmenn á bakvið sig.
Fátt bendir til annars sem stendur en að sitjandi ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks endurnýi samstarf sitt. Óformlegar viðræður um helstu málefnaáherslur, helstu deilumál og verkaskiptingu hafa staðið yfir frá því í byrjun liðinnar viku. Heimildir Kjarnans herma að til skoðunar sé að fjölga ráðuneytum og færa málefni á milli þeirra. Þar er helst horft til þess að búa til nýtt innviðaráðuneyti með því að færa meðal annars húsnæðismál inn í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og að skipta sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu upp í tvennt á ný.
Framsókn sækist eftir frekari áhrifum
Gengið er út frá því í viðræðunum að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra.
Sigurður Ingi sækist samkvæmt heimildum Kjarnans eftir því að fá fjármálaráðuneytið á grundvelli aukins styrks Framsóknarflokksins eftir kosningar, en þingmönnum flokksins fjölgaði um fimm og eru nú 13, eða þremur færri en sá fjöldi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur. Það þykir næst valdamesta ráðuneytið og þaðan er hægt að stýra fjármagni í þau stóru verkefni sem Framsóknarflokkurinn lofaði að ráðast í í aðdraganda kosninganna, til að mynda kerfisbreytinga í framfærslukerfum eldri borgara og öryrkja.
Viðmælendur Kjarnans hafa sagt að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sé ekki afhuga þessari niðurstöðu fái Sjálfstæðisflokkurinn fleiri ráðuneyti í sinn hlut í staðinn. Sjálfur myndi hann þá sennilegast setjast í stól utanríkisráðherra.
Ef Framsóknarflokkur og Vinstri græn myndu ákveða að fara í minnihlutastjórn með Samfylkingu, sem tapaði fylgi og þingmanni í liðnum kosningum, myndu flokkarnir fá mun meiri áhrif og fleiri ráðuneyti til að stýra. Engin hefð er fyrir myndun minnihlutastjórna sem varðar eru falli af flokkum sem standa utan formlegs stjórnarsamstarfs hérlendis. Það er fyrirkomulag sem tíðkast víða á Norðurlöndunum en minnihlutastjórnir eru við stjórnvölinn í Noregi, Svíþjóð og Danmörku sem stendur. Í Finnlandi er meirihlutastjórn fimm flokka.