Slæmt veður er talið hafa grandað Airbus-farþegaþotu AirAsia á Javahafi fyrir réttri viku síðan. Indónesísk yfirvöld hafa greint fyrirliggjandi gögn og komist að niðurstöðu um að veðurskilyrði hafi hratt af stað atburðarás sem endaði með því að þotan fórst með alla 162 farþega sína.
Aðstæður til leitar þar sem þotan er talin hafa hrapað í hafið eru slæmar og hefur það hamlað allri frekari leit að líkum farþega og flaki vélarinnar. Yfirvöld í Indónesíu hafa jafnframt greint frá því að nú, viku eftir slysið, sé erfitt að bera kennsl á lík farþeganna eftir volkið í hafinu.
Mikið kapp er einnig lagt í að finna flugrita vélarinnar til að fá nákvæmar upplýsingar um hvað átti sér stað um borð í vélinni áður en hún skall í hafið. AFP-fréttastofan greinir frá þessu.
https://www.youtube.com/watch?v=1BkgG2aKFP8
Flaug inn í 85 gráðu frost
Farþegaþotan tók á loft frá Surabaya, næst stærstu borg Indónesíu, sunnudaginn 28. desember og hafði flogið í fáeinar klukkustundir áleiðis til Singapúr þegar samband við vélina rofnaði. Fyrstu vísbendingar bentu til þess að vélin hafi flogið inn í óveður.
„Byggt á þeim upplýsingum sem hefur verið aflað á þeim stað þar sem samband rofnaði við vélina er veðrið orsök slyssins,“ segir í skýrslu indónesískra yfirvalda. Innrauðar gervitunglamyndir voru notaðar til að greina nánar hitastig skýjanna sem vélin hefur flogið inn í. Minnsta hitastig skýjanna var á bilinu -80 til -85°c.
„Veðrið hefur því líklegast skapað ísingu sem getur skemmt vélar þotunnar vegna mikillar kælingar. Þetta er hins vegar aðeins einn möguleiki þess sem gæti hafa gerst byggt á þessum veðurfræðigögnum,“ segir enn fremur í skýrslunni.
Hjálparsveitir hafa endurheimt hluta af flaki vélarinnar úr hafinu á liðinni viku. Aðgerðin er flókin og erfið enda hafa veðurskilyrði ekki verið góð.
Enn er á huldu hvers vegna aðrar farþegavélar á sömu slóðum urðu ekki fyrir áhrifum af verðinu. Rannsakendur hafa því lagt áherslu á að finna flugrita farþegaþotu AirAsia enda liggja ekki fyrir næg gögn til að segja til um orsök með nægilegri vissu.
Fimm stórir hlutar vélarinnar hafa fundist undan ströndum eyjunnar Bornero. Fjöldi líka farþega sem fundist hafa er nú 34. Flak vélarinnar er talið liggja á sjávarbotni en kafarar hafa átt erfitt með að finna nokkuð á svo miklu dýpi vegna lélegra sjónskilyrða.
Staðurinn þar sem þotan hvarf af ratsjám
[google_map width="100%" height="300px" src="https://www.google.com/maps/embed?pb=!1m14!1m8!1m3!1d8157011.204639039!2d109.6911!3d-3.3708!3m2!1i1024!2i768!4f13.1!3m3!1m2!1s0x0%3A0x0!2zM8KwMjInMTQuOSJTIDEwOcKwNDEnMjguMCJF!5e0!3m2!1sen!2s!4v1420380847320"]