Liðsmenn Íslamska ríkisins (ISIS) hafa að undanförnu eyðilagt fornmuni á listasöfnum í borginni Mosul, sem þykja með merkilegustu og verðmætustu upprunalegu listmunum sem til eru í veröldinni. Í myndabandi sem Channel 4 birtir sjást liðsmenn ISIS eyðileggja listaverk með sleggju.
Sum verkanna eru talin allt að þrjú þúsund ára gömul. Sveitir Íslamska ríkisins hafa haft yfirráð í Mosul síðan í júní á síðasta ári, og farið um svæðið með gengdarlausu ofbeldi gagnvart fólki sem samtökin telja að sé ekki hliðhollt þeim.
Nýlega var greint frá því að liðsmenn samtakanna hefðu brennt yfir átta þúsund forn handrit. Á safninu í Mosul eru taldir vera um 1.700 upprunalegir fornmunir sem mögulega eru í hættu á því að verða eyðilagðir af liðsmönnum ISIS, segir í frétt CNN.
Elenor Robson, formaður bresku stofnunarinnar um írösk fræði, segir í viðtali við CNN að mun fleiri upprunaleg verk séu á safninu í Mosul en hún hafi haldið. Skemmdarverkin eru fordæmd og þau sögð vera árás á sögu Íraks og mikilsverða sögu Mið-Austurlanda og heimsins. Irin Bokova, framkvæmdastjóri UNESCO, segir eyðilegginguna vera miklu meira en bara skemmdarverk, heldur líka atburð sem vinni gegn öryggistilfinningu fólks í Írak.