Breskur stuðningsmaður hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins er sagður bera ábyrgð á því að upplýsingar um Rob O'Neill, manninn sem segist hafa skotið Osama bin Laden til bana, eru nú í dreifingu á internetinu. Mirror greindi frá þessu.
Mirror segist hafa fylgst með hryðjuverkamönnum á samfélagsmiðlum og séð marga deila skjali sem inniheldur upplýsingar um það hvernig hægt sé að finna O'Neill, meðal annars með heimilisfangi hans. Stjórnendur samfélagsmiðla hafa reynt að koma í veg fyrir dreifinguna, og það hefur einnig verið reynt að loka síðunni sem hýsir skjalið með upplýsingunum. Í upphaflegu deilingunni sagðist þessi breski öfgamaður skilja þessar upplýsingar eftir fyrir bræður hans og Al-Kaída í Bandaríkjunum. O'Neill væri helsta skotmark þeirra og „bræður hans“ ættu að finna og drepa hann.
O'Neill hefur vakið mikla athygli og sætt gagnrýni í kjölfar þess að hann kom fram opinberlega og sagðist vera hermaðurinn sem bar ábyrgð á dauða bin Laden, en hann var skotinn til bana í árás í Abbottabad í Pakistan árið 2011. O'Neill kom fram í myndinni „The Man Who Killed Osama bin Laden“. Ekki eru allir sammála því að það hafi verið hann sem skaut bin Laden til bana, meðal annars hafa aðrir hermenn sagt að frásögn hans eigi ekki við rök að styðjast.
Mirror segist hafa reynt að hafa samband við O'Neill til að vara hann við, en án árangurs.