Þörf er á skýrari stefnumótun í utanríkismálum með aðkomu Alþingis en óljóst er hverju íslensk stjórnvöld vilja ná fram með nánari varnarsamvinnu við Bandaríkin. Utanríkisstefna þarf að byggja á sterkum stoðum innanlands og þannig er ekki trúverðugt að forgangsraða aðgerðum gegn loftlagsvá í utanríkisstefnunni þegar Ísland er langt frá því að vera til fyrirmyndar í þessum málaflokki innanlands.
Þetta kemur meðal annars fram í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála Íslands á Kjarnanum þar sem Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands ræðir niðurstöður rannsókna sinna um leiðir smáríkja til að tryggja hagsmuni sína við Karl Blöndal aðstoðarritstjóra Morgunblaðsins og Silju Báru Ómarsdóttur prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Í þessum fyrsta þætti af sex um utanríkismál Íslands kemur einnig fram að viðmælendur telja að Ísland hafi brugðist seint við ákalli Afgana um aðstoð við að flytja þá frá landinu. Íslensk stjórnvöld þurfi að ígrunda betur hverju þau vilji ná fram með utanríkisstefnunni eins og til dæmis með þátttökunni sinni í aðgerðum NATO í Afganistan og forgangsröðun jafnréttismála og mannréttindamála. Þeir telja einnig farsælla að vinna að hagsmunun Íslands með fjölþjóðasamvinnu innan mismunandi alþjóðastofnana heldur en að reiða sig á eitt tiltekin voldugt bandalagsríki.
Hætta á að lítil ríki ofmetnist
Enn fremur kemur fram í þættinum mikilvægi þess fyrir lítil ríki að átta sig bæði á styrkleikum og veikleikjum sínum og í kjölfar þess forgangsraða hagsmunamálum. Farsælast sé að forgangsraða mjög stíft og velja þurfi málaflokka eða málaflokk eins og til dæmis mannréttindamál. Innan þessara málaflokka sé síðan mikilvægt að forgangsraða enn frekar og leggja til dæmis áherslu á jafnrétti kvenna eða hinsegin fólks. Lítil ríki hafi minni stjórnsýslu, takmarkaðri sérfræðiþekkingu og efnahagsgetu heldur en stærri ríki og mikilvægt sé að þau grípi til ráðstafana til að draga úr þessum veikleikum. Að öðrum kosti sé hætta á að þau ofmetnist og ráði ekki við þau verkefni sem þau vilja sinna.
Lítil ríki þurfi einnig að varast að láta stærri ríki eins og Kína og Íran misnota sig til ákveðinna verka. Staðan sé eigi að síður þannig að lítil ríki hafa aldrei haft meiri möguleika í alþjóðakerfinu til að tryggja hagsmuni sína og hafa áhrif í samfélagi þjóðanna. Þau þurfi þó ávalt að gæta þess að ætla sér ekki um of og setja sig ekki á háan hest.
Þekking innanlands forsenda þess að hægt sé að hafa áhrif
„Yfirgripsmikil þekking innanlands á þeim málaflokkum sem Ísland vill leggja áherslu á í alþjóðasamfélaginu er ein af forsendum þess að hægt sé að hafa áhrif. Mikilvægt í þessu samhengi er að efla bæði sérfræðiþekkingu innan stjórnsýslunnar og þekkingu meðal stjórnmálamanna. Ef stjórnmálamenn trúa því ekki að þeir geti haft áhrif innan alþjóðastofnana eða í samskiptum sínum við stærri ríki þá er hætta á að þeir reyni ekki að láta til sín taka.
Til að Ísland geti haft áhrif á alþjóðavettvangi er lykilatriði að stjórnmálamenn séu reiðubúnir að verja tíma og fjármunum til verksins. Einnig er mikilvægt að embættismenn öðlast þjálfun í samningatæki í alþjóðamálum þannig að þeir geti tekið frumkvæði í samningaviðræðum og gengt leiðtogahlutverki,“ segir Baldur. Í þessu samhengi bendir Silja Bára Ómarsdóttir á að í ljósi góðrar stöðu jafnréttimála hér á landi og sérþekkingu í jafnréttismálum innanlands hafi Ísland orðið leiðandi í jafnrétti kynjanna í alþjóðasamfélaginu.
Viðmælendur voru sammála um það að lítil ríki eins og Ísland þurfi pólitískt skjól stærri ríkja og alþjóðastofnana, þ.e. varnir og diplómatíska aðstoð. Einnig voru þeir sammála um að samfélagslegt skjól í formi aðgangs að menntun, menningu og vísindasamstarfi hjá stærri ríkjum væri lykilinn að því að lítið samfélag gæti blómstrað. Þau voru hins vegar ekki á einu máli um það hvort að lítil ríki þyrftu á efnahagslegu skóli stærri ríkja og alþjóðastofnana að halda.
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.