Íslensk stjórnvöld ætla að beita sér fyrir því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent fyrir árið 2030. Þetta kemur fram í yfirlýsingu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, sem flutt var síðdegis á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um ný heimsmarkmið um sjálfbæra þróun fyrir tímabilið 2015 til 2030, en viðmiðunarárið í markmiðunum er 1990.
Markmiðið með áætluninni er að útrýma, eða draga verulega úr, fátækt í heiminum fyrir árið 2030, vernda umhverfið og náttúru jarðar eins og best er unnt, og stuðla að efnahagslegri velmegun og félagslegri þróun.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segist fagna þessari yfirlýsingu stjórnvalda. „Nú hefur forsætisráðherra tekið af skarið. Draga skal úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi um 40% fyrir 2030. Þessari yfirlýsingu ber að fagna enda tekur Ísland þá ábyrgð til jafns við aðrar þjóðir í Evrópu,“ segir í yfirlýsingu sem birt hefur verið á vef Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Nánari útfærslur á því hvernig þessum markmiðum verður náð, liggja ekki fyrir, en ljóst er að það verður krefjandi verkefni.