Eftir að hafa verið í 18. sæti árið 2019 og 14. sæti árin 2020 og 2021 er Ísland nú komið upp í 9. sæti á Regnbogakorti evrópsku deildar Alþjóðasamtaka hinsegin fólks (ILGA-Europe), en Regnbogakortið er mælikvarði á það hversu vel ríki Evrópu tryggja réttindi hinsegin fólks.
Ástæðan fyrir því að Ísland færist upp um sæti er meðal annars sú að breytingar á barnalögum leiddu til bætts réttar trans foreldra þegar kemur að foreldraskráningu, samkvæmt því sem fram kemur í umfjöllun ILGA-Europe.
Ísland skýst nú upp fyrir eitt hinna Norðurlandanna, en Finnland fellur um sex sæti á milli ára og er nú í 12. sæti listans. Danmörk er í 2. sæti, Svíþjóð í 4. sæti og Noregur í 6. sæti, í þessari mælingu.
Regnbogakortið tekur til alls 49 ríkja Evrópu og trónir miðjarðarhafseyjan Malta í efsta sæti, eins og fyrri ár, en þar í landi er réttarstaða hinsegin fólks tryggari en í öllum öðrum ríkjum álfunnar og uppfyllir eyríkið 92 prósent þeirra atriða sem litið er til í mati ILGA-Europe.
Á hinum enda kvarðans er Aserbaídsjan, sem uppfyllir einungis um tvö prósent þeirra atriða sem litið er til á Regnbogakortinu. Ísland, til samanburðar, uppfyllir nú um 63 prósent atriðanna.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins í dag segir að Ísland stefni enn hærra, með þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks, sem Kjarninn fjallaði um fyrr á þessu ári er drög að henni lágu frammi til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Þar mátti finna alls 17 aðgerðir sem ætlað var að stuðla að réttarbótum og bættri stöðu hinsegin fólks.
ILGA-Europe hvetur til þess í umfjöllun sinni um Ísland að íslensk stjórnvöld grípi til frekari aðgerða til þess að bæta lagalega stöðu hinsegin fólks, meðal annars þess að minnast sérstaklega á kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu og kyneinkenni í öllum stefnum sem eru markaðar gegn hatursglæpum hérlendis og til þess að fjallað verði sérstaklega um þessi sömu atriði í lagaákvæðum sem fjalla um alþjóðlega vernd.
Þá er sömuleiðis hvatt til þess að bann við læknisfræðilegum inngripum í kyneinkenni intersex barna verði útvíkkað frekar hér á landi.