Ísland setti sig ekki upp á móti kröfum þróunarríkjanna um uppfærslu skattanefndar Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlegri ráðstefnu um fjármögnun þróunarsamvinnu, sem lauk í vikunni. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans. Fjórir fulltrúar frá Íslandi voru á ráðstefnunni, þar á meðal Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Í gær greindi Kjarninn frá því að þróunarríkin börðust fyrir því á ráðstefnunni að skattanefnd Sameinuðu þjóðanna yrði breytt og hún efld til þess meðal annars að tryggja að stórfyrirtæki nýti sér ekki spillingu og lélega lagasetningu í fátækjum ríkjum. Utanríkisráðuneytið sagði einnig frá því að mörg vestræn ríki voru á móti þessum breytingum, og færðu þau rök fyrir því að OECD fari nú þegar með alþjóðleg skattamál auk þess sem öllum þróunarríkjum bjóðist að starfa með Alþjóðlegum vettvangi um gagnsæi og upplýsingaskipti í skattamálum.
Niðurstaðan varð málamiðlun, þar sem skattanefndin mun fjölga starfsdögum sínum og fá aukið fjármagn, en aðrar róttækari breytingar verða ekki gerðar á nefndinni. Þetta hefur verið gagnrýnt af alþjóðlegum mannúðarsamtökum, sem telja að ekki sé nóg gert til að laga skattamál fátæku fólki í hag.
Ísland var ekki meðal þeirra vestrænu ríkja sem setti sig upp á móti kröfu þróunarríkjanna. „Utanríkisþjónustan leitaði samráðs við fagráðuneyti á öllum stigum samningaviðræðnanna, þ.m.t. fjármálaráðuneytið sem fer með skattamál. Ísland setti sig ekki upp á móti kröfum þróunarríkjanna um uppfærslu skattanefndarinnar en niðurstaða samninganna sem kveður á um styrkingu og aukin umsvif nefndarinnar er skýr málamiðlun þeirra sem sterkustu afstöðuna höfðu, þ.e. ríkja á borð við Bandaríkin og Japan meðal vestrænu ríkjanna og Indlands meðal þróunarríkja,“ segir í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
„Í lokaniðurstöðunni er kveðið skýrt á um að uppræta þurfi ólögmætt flæði fjármagns og undanskot frá skatti, þ.m.t. af hálfu stórra alþjóðlegra fyrirtækja. Sérstök athygli er vakin á þeirri vinnu sem þegar fer fram á þessum vettvangi, þ.m.t. hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og OECD og Alþjóðlega vettvangsins um gagnsæi og upplýsingaskipti í skattamálum (Global Forum on Transparency and Exchange of Information for Tax Purposes).“